Styðja fulltrúa sem rugga ekki bátnum

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir það þekkta pólitíska aðferðarfræði að rétta kyndilinn áfram til þeirra sem eru ólíklegri til að rugga bátnum eða fara gegn hugmyndafræði þeirra sem fyrir sitja. Þetta skrifar hann á Facebook-síðu sína vegna komandi kosninga í stéttarfélaginu Eflingu.

Sigurður Bessason sem hefur verið formaður Eflingar sl. 18 ár sagði í samtali við Morgunblaðið í dag það vera óvanalegt að framboð til stjórnar Eflingar sé í gegnum pólitískt umhverfi líkt og núna en Sólveig Anna Jónsdóttir, annar formannsframbjóðandinn, hefur verið virk í starfi Sósíalistaflokksins.

Líkt og fram hefur komið í fyrri fréttum um komandi kosningar í Eflingu styður núverandi forysta Eflingar framboð uppstillingarnefndar félagsins með Ingvar Vigur Halldórsson í broddi fylkingar en Ragnar Þór hefur lýst yfir stuðningi við framboð Sólveigar.

„Það er eins og að skjóta tívolíbombum úr gróðurhúsi þegar Gylfi [Arnbjörnsson, formaður ASÍ, innsk. Blm] eða Sigurður reyna að tengja framboðið einhverjum pólitískum öflum með neikvæðum hætti og sýnir þá örvæntingu sem gripið hefur um sig meðal þeirra,“ segir Ragnar Þór.

„Það eru meiri líkur á að Sólveig Anna leiði næstu byltingu stéttanna en ég. Ég vona það allavega, því þarna fer mikið forystu efni sem þarf enga hjálp frá einum eða neinum, allra síst gömlum risaeðlum sem hreiðrað hafa um sig innan hreyfingarinnar og byggt í kringum sig múra frá sauðsvartri Alþýðunni,“ skrifaði Ragnar Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert