Borgarráð samþykkir umdeildar byggingar

Eikjuvogur. Húsið Birkihlíð er til vinstri á myndinni. Minjastofnun telur …
Eikjuvogur. Húsið Birkihlíð er til vinstri á myndinni. Minjastofnun telur það hafa gildi fyrir sögu hverfisins. Lóðin Eikjuvogur 27 er þar til hliðar. mbl.is/​Hari

Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt uppbyggingu á þríbýli á óbyggðri lóð í Eikjuvogi 27. Íbúar hverfisins söfnuðu undirskriftum gegn þessum áformum og hyggjast nú kæra samþykkt borgarráðs.

Guðmundur Atli Pálmason á einbýlishúsið Birkibæ í Eikjuvogi 25. Hann segir uppbygginguna munu rýra verðgildi húss síns, m.a. með því að valda miklu skuggavarpi. Hann muni láta meta tjónið til fjár.

„Það er mikil breyting að breyta úr einbýlishúsi í tvö hús sem mynda þríbýli,“ segir Guðmundur Atli í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Hann segir alla íbúa í Eikjuvogi og nálægum húsum í Gnoðarvogi hafa skrifað undir mótmælaskjal. Íbúarnir hafi m.a. óttast að uppbyggingin yki á bílastæðaskort.

Byggingarlóðin á sér langa sögu. Þegar Birkibær var byggður 1935-37 fékk húseigandi úthlutað 3,5 hekturum lands við húsið. Það skipulag breyttist og átti húseigandi upp frá því lóðina Eikjuvog 27. Síðar keypti húseigandi í Eikjuvogi 29 lóðina og fékk leyfi fyrir því árið 2008 að reisa tveggja hæða einbýlishús. Vegna hrunsins var hætt við þau áform og seldi lóðarhafi lóðina í fyrra með samþykktri teikningu.

 Hefði aldrei verið samþykkt

Guðmundur Atli segist hafa fallist á beiðni þáverandi lóðarhafa um að breyta byggingarreitnum, stækka hann og færa húsið neðar í lóðina.

„Það hefði líkast til annars aldrei verið samþykkt. Við samþykktum þetta út frá þeirri teikningu sem lögð var fram. Það var enda nánast engin skuggamyndun á okkar lóð.“

Þess má geta að árið 2010 gerði Minjastofnun húsakönnun í hverfinu með þeirri umsögn að Eikjuvogur 25 hefði „gildi fyrir sögu hverfisins“. Guðmundur Atli telur nýju húsin munu „kaffæra“ Eikjuvog 25. Átta metra veggur á norðurgafli nýbyggingar verði aðeins sjö metra frá húsinu. Íbúarnir verði þvingaðir á brott.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert