Nýta sér reynslu Þjóðverja af myglu

Húsnæði í Reykjavík.
Húsnæði í Reykjavík. mbl.is/Ómar

Nýta á reynslu Þjóðverja af myglu og rakaskemmdum í húsnæði í vinnu sem er hafin hérlendis við að skýra ferlið sem fer í gang þegar þessi vandamál koma upp. Vonast er til að réttarstaða verði skýrari fyrir vikið. Þetta kom fram á fræðslufundi um myglu sem var haldinn á Grand Hótel í morgun.

Samtök verslunar og þjónustu ásamt verkfræðistofunni Mannviti stóðu fyrir fundinum.

María Ingibjörg Gunnbjörnsdóttir, lungna- og ofnæmislæknir hjá Landspítalanum, steig fyrst í pontu og fjallaði um það hvort mygla eða raki í húsnæði hafi áhrif á heilsu fólks. Þar kom fram að öndunarfæraeinkenni og astmi eru 30 til 50% algengari hjá einstaklingum sem búa í rakaskemmdu húsnæði, sýnilega myglu eða skemmd í gólfefni er að finna á 7% íslenskra heimila, auk þess sem leki fyrirfinnst í um 20% íslenskra húsa. 

Næg gögn sem sýna tengsl

María Ingibjörg vitnaði í stórar faraldsfræðilegar rannsóknir sem hafa verið gerðar á síðustu árum þar sem spurt var um umhverfisþætti og heilsu. Hún sagðist frekar vilja tala um loftmengun heldur en myglu í máli sínu, enda ekki hægt að sanna beint hvort mygla ein og sér er orsakavaldur veikinda.

Fram kom í einni rannsókninni að nægileg tengsl voru til að sýna að hærri tíðni astma og öndunarfæraeinkenna var hjá þeim sem búa í rakaskemmdu húsnæði. María benti á að nóg væri til af gögnum sem sýna að þessi tengsl eru fyrir hendi en ekki eru til næg gögn sem sýna bein orsakatengsl.

Í umfjöllun sinni minntist hún á rannsóknir sem sýna tengslin á milli astma og öndunarfæraeinkanna við raka og myglusvepp.

Fram kom að:

  • Raki eykur magn sveppagróa í andrúmslofti
  • Myglusveppur getur valdið ofnæmi
  • Frumuveggur myglusveppa inniheldur efni sem getur valdið bólgu/ertingu
  • Myglusveppir geta búið til mycotoxin.
  • Sveppir efa frá sér rokgjörn efni

Einnig nefndi hún bakteríur, edotoxín, mítla, niðurbrot byggingaefna og samspil umhverfis og erfða sem mögulega þætti sem geta valdið veikindum.

Frá fræðslufundinum í morgun.
Frá fræðslufundinum í morgun. mbl.is/Freyr

Ýmis einkenni af völdum myglusvepps

María sagði frá síðasta einstaklingi sem hún hitti sem hafði týpísk einkenni af völdum rakaskemmda í húsnæði. Tveimur mánuðum eftir að hann keypti sér íbúð kvartaði hann yfir sviða í lungum og hálsi, stíflu vegna kvefs, nefrennsli, höfuðverki, þreytu og einskonar heilaþoku. Þetta leiddi til skertrar starfsgetu. Fleiri þekkt einkenni eru erting í húð, ógleði, skapgerðarbreytingar, óþægindi í maga, svefnörðugleikar og minnistap.

Viðhald og loftræsting

Í samantekt hennar kom fram að vanda þurfi til verka til hönnun og byggingu húsnæðis. Gera þarf strax við allan leka, viðhald þarf að vera gott og tryggja þarf góða loftræstingu í byggingum. Einnig þarf að upplýsa almenning um helstu uppsprettur raka innandyra og mikilvægi þess að lofta húsnæði daglega.

Reykjavík.
Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allir geta hagnast af góðri innivist

Alma Dagbjört Ívarsdóttir og Kristján Guðlaugsson, verkfræðingar hjá Mannviti, voru næst á dagskrá með umfjöllun um svokallaða innivist og líðan fólks í húsnæði.

Alma Dagbjört sagði marga samverkandi þætti koma saman í vinnuumhverfi og benti á að innivist væri gríðarlega margþætt hugtak sem feli í sér bygginguna sjálfa, loftgæði, hljóðvist og lýsingu. Allir geti hagnast af góðri innivist.

Hún nefndi innivistarhringinn í máli sínu, sem er vinnulag sem Mannvit fer eftir til að tryggja bestu innivistina í húsnæði. Vinnulagið er byggt upp á vöktun, greiningu og aðgerðum. Allt er skráð þannig að til verður innivistarsaga um húsnæðið.

Mygla og réttarstaða

Othar Örn Petersen, lögmaður hjá Logos, talaði um myglu og réttarstöðu gagnvart henni. Hann fór yfir dóma hérlendis sem hafa tengst myglu í húsnæði.

Í niðurstöðu hans kom þetta fram:

  • Kaupandi verður að sanna að mygla hafi verið til staðar við afhendingu, alla jafna með matsgerð. Einhliða álit er ekki nægilegt.
  • Fasteign telst gölluð ef hún stenst ekki kröfur sem leiðir af lögum og kaupsamningi.
  • Fasteign er ekki gölluð ef kostnaður við að bæta úr t.d. mygluskemmdum rýrir ekki verðmæti eignar „svo nokkru varði“.
  • Fasteign telst gölluð ef seljandi hefur sýnt af sér saknæma háttsemi sama hver kostnaður af úrbótum er.
  • Leigjandi verður að sanna að mygla hafi þau áhrif að leiguhúsnæði sé ekki í því ástandi sem almennt er talið fullnægjandi miðað við fyrirhugaða notkun og staðsetningu.

Engir sérfræðingar í atvinnusjúkdómum

Að lokinni umfjöllun Othars gátu fundargestir beint spurningum til þeirra sem stigu á stokk. Fram kom í svari Maríu við einni spurningunni að engir sérfræðingar eru hérlendis í atvinnusjúkdómum. Hún bjó áður í Svíþjóð þar sem slíkir sérfræðingar voru til staðar sem fóru og skoðuðu húsnæði með rakaskemmdum.

Raki og mygla geta verið til vandræða í híbýlum fólks.
Raki og mygla geta verið til vandræða í híbýlum fólks. mbl.is/Golli

Dýr matsgerð

Starfsmaður Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja minntist á orð Othars um að mikilvægt sé að það liggi fyrir matsgerð óháðra, dómkvaddra manna til að sanna hvort mygla hafi verið til staðar við afhendingu húsnæðis. Starfsmaðurinn sagði slíka matsgerð mjög dýra og fáist ekki afhent nema viðkomandi hafi greitt fyrir það. Í þeim tilfellum þar sem fólk hefur ekki efni á matsgerð, til dæmis þegar leigjendur eru annars vegar, benti hann á að það geti notast við niðurstöðu heilbrigðiseftirlitsins, óháðrar stofnunar, sem sinni slíkum málum.

Nýta sér 25 ára reynslu Þjóðverja

Í lok fundarins sagði fundarstjóri að markmiðið með fræðslufundinum hafi verið að styrkja og skýra það ferli sem fer í gang þegar mygla og rakaskemmdir koma upp í húsnæði. Hann sagði að hafin væri vinna, meðal annars á milli Mannvits, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka iðnaðarins og Mannvirkjastofnunar við að skýra þetta ferli enn betur.

Í vinnunni verður notast við 25 ára reynslu Þjóðverja hvað þetta varðar. Hann sagði mikilvægt að hefja þessa vinnu þannig að réttarstaðan verði skýrð og engum vafa verði undirorpið um hvaða ferli fer í gang þegar mygla og rakaskemmdir koma upp og hvernig skuli taka á slíkum málum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert