Vatnajökulsþjóðgarður tilnefndur á heimsminjaskrá UNESCO

Íshellir í Vatnajökli í Vatnajökulsþjóðgarði.
Íshellir í Vatnajökli í Vatnajökulsþjóðgarði. mbl.is/RAX

Vatnajökulsþjóðgarður og hluti gosbeltisins voru tilnefnd á heimsminjaskrá UNESCO í dag. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, undirrituðu tilnefninguna fyrir hönd íslenska ríkisins. Umsóknin var afhent heimsminjaskrá UNESCO í París í dag.

Í tilkynningu frá ráðuneytunum kemur fram að í tilnefningunni er áhersla lögð á rekbeltið, heita reitinn undir landinu og eldstöðvakerfi í gosbeltunum ásamt samspili elds og íss sem einstakt er talið á heimsvísu.

Á heimsminjaskrá UNESCO eru staðir sem teljast hafa gildi ekki einvörðungu fyrir viðkomandi land heldur fyrir allt mannkyn. Ísland á þegar tvo staði á heimsminjaskránni, Þingvelli (2004) og Surtsey (2008).

Vonast er til að ákvörðun af hálfu heimsminjanefndar UNESCO liggi fyrir um mitt ár 2019. „Mikil ásókn er frá ríkjum heims að fá staði á heimsminjaskrána og eru sett ströng skilyrði af hálfu heimsminjanefndar áður en samþykki er veitt,“ segir í tilkynningunni.

Undirritunin fór fram við Hoffellsjökul í dag, en auk ráðherranna tveggja voru fulltrúar sveitarfélaga, Vatnajökulsþjóðgarðs og höfunda texta, ásamt verkefnisstjórn, viðstödd.

Við umsókninni tóku dr. Mechtild Rössler, framkvæmdastjóri heimsminjaskrifstofu UNESCO, og …
Við umsókninni tóku dr. Mechtild Rössler, framkvæmdastjóri heimsminjaskrifstofu UNESCO, og Alessandro Balsamo sviðsstjóri en það voru Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Frakklandi, og Sigurður Á. Þráinsson, formaður verkefnisstjórnar um tilnefninguna, sem afhentu umsóknina. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert