Horfur krabbameinssjúkra batna

Eftir að búið er að taka tillit til mismunandi aldurs …
Eftir að búið er að taka tillit til mismunandi aldurs og dauðsfalla af öðrum orsökum hafa krabbameinssjúklingar í átta löndum,þar á meðal Íslandi, bestu horfur í heiminum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Horfur einstaklinga með krabbamein eru almennt að batna í heiminum, jafnvel hjá þeim sem glíma við erfiðustu krabbameinin eins og í lifur og lungum. Þetta eru niðurstöður nýrrar og víðtækrar rannsóknar sem birt var í gær og spannaði um 14 ára tímabil frá árinu 2000.

Í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu um rannsóknina kemur fram að rannsóknin hafi náð til landa þar sem tveir þriðju hlutar mannkyns búa og leiðir í ljós að mikill munur er á lifun milli landa, sérstaklega þegar kemur að tilteknum gerðum krabbameina í börnum.

„Sem dæmi hafa horfur barna með heilaæxli batnað í mörgum löndum. Þannig er fimm ára lifun hjá börnum sem greindust allt fram til ársins 2014 tvöfalt hærri í Danmörku og Svíþjóð, í kringum 80%, á meðan hún er innan við 40% í Mexíkó og Brasilíu. Líkur eru á að þetta endurspegli aðgang sjúklinga að greiningu, gæði greiningarinnar og meðferðarúrræði,“ segir í tilkynningu.

Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands tók þátt í rannsókninni sem nefnist CONCORD-3 og var birt læknaritinu The Lancet. Hún byggðist á greiningum einstaklinga frá 322 krabbameinsskrám í 71 landi eða landssvæðum.

Ísland í hópi landa með bestu horfurnar

Eftir að búið er að taka tillit til mismunandi aldurs og dauðsfalla af öðrum orsökum hafa krabbameinssjúklingar í átta löndum bestu horfur í heiminum og hafa þær haldist nokkuð stöðugar síðustu 15 árin. Ísland er á meðal þessara landa ásamt Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

„Á Íslandi var fimm ára lifun 89% hjá konum sem greindust með brjóstakrabbamein síðasta fimm ára tímabil rannsóknarinnar, eða árin 2010-2014, samanborið við 66% hjá konum á Indlandi. Í Evrópu náði prósentan upp í 85% eða meira í 16 löndum, en komst aðeins upp í 71% í Rússlandi, sem er lægsta prósentan í álfunni,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert