Segir niðurstöðuna fullnaðarsigur

Jóhannes Kr. Kristjánsson í dómsal í dag.
Jóhannes Kr. Kristjánsson í dómsal í dag. mbl.is/​Hari

Jóhannes Kr. Kristjánsson, framkvæmdastjóri og eigandi Reykjavík Media, segir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, um að staðfesta ekki lögbann sýslumannsins í Reykjavík á umfjöllun Reykjavík Media og Stundarinnar sem unnin var upp úr gögnum innan úr Glitni, vera fullnaðarsigur fyrir miðlana. Öllum kröfum Glitnis Holdco var annaðhvort hafnað eða vísað frá dómi núna í hádeginu. Enn er þó óljóst hvort þrotabúið muni áfrýja málinu.

„Samkvæmt dómsorðinu sem við heyrðum hérna áðan er öllum kröfum Glitnis Holdco vísað frá og hafnað þannig að þetta er fullnaðarsigur fyrir Reykjavík Media og Stundina og fyrir tjáningarfrelsið í landinu,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is eftir að dómur héraðsdóms hafði verið lesinn upp.

Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Reykjavik Media, faðmaði Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, …
Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Reykjavik Media, faðmaði Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, ritstjóra Stundarinnar, í héraðsdómi í dag. mbl.is/​Hari

Hann segist ekki vita hvort Glitnir muni áfrýja til Landsréttar og hvenær megi þá byrja að fjalla um málið. Hann segir hins vegar ósagðar fréttir í málinu, en vill ekki segja nánar hverjar þær eru eða hverjum þær tengjast.

Miðlunum var dæmdur málskostnaður í málinu, 1,2 milljónir á hvorn miðil. Jóhannes segir að ekki sé enn ljóst hver fjárhagslegur baggi miðlanna verði vegna málsins, en að lögfræðiþjónusta sé ekki ódýr og geti reynst þung fyrir litla miðla eins og Reykjavík Media og Stundina.

Hann segir lögbannsmál eins og þetta vera aðferð fjársterkra aðila til að koma í veg fyrir umfjöllun. „Þetta er þekkt aðferð stórra fyrirtækja eða fjársterkra aðila að reyna að lama umfjöllun um þessi fyrirtæki eða aðila með að hjóla með lagatæknilegum hætti í umfjöllunina, blaðamanninn eða fjölmiðilinn í heild sinni,“ segir Jóhannes.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert