Íhuga að höfða skaðabótamál

Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjórar Stundarinnar, ásamt …
Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjórar Stundarinnar, ásamt lögmanni sínum í héraðsdómi. mbl.is/​Hari

Líklegt er að Stundin og Reykjavík Media höfði skaðabótamál eftir að fjölmiðlarnir unnu lögbannsmál Glitnis Holdco gegn þeim fyrir helgi í Héraðsdómi Reykjavíkur.

„Það er ekkert ólíklegt að við reynum að fá þetta bætt með einhverjum hætti. Líka upp á fordæmið, þannig að það sé ekki hægt að fara í svona mál gegn fjölmiðlum án þess að það hafi einhverjar afleiðingar," segir Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, annar af ritstjórum Stundarinnar.

„Við erum að skoða þetta með lögmönnunum okkar. Þetta er mál sem hefur kostað okkur ótrúlega peninga, tíma og orku.“

Ákvörðun um áfrýjun í vikunni

Báðum fjölmiðlunum voru dæmdar 1,2 milljónir króna í málskostnað á föstudaginn. Jón Trausti Reynisson, hinn ritstjóri Stundarinnar, sagði við mbl.is eftir að dómurinn var kveðinn upp að erfitt væri að sjá að sú upphæð næði utan um allan kostnað miðilsins við vörnina í málinu.

Einnig kom fram að sigur fjölmiðlanna í málinu væri ekki fullunninn fyrr en áfrýjunarfresturinn væri liðinn þremur vikum síðar.

Ingólfur Hauksson, forstjóri Glitnis Holdco, segir í samtali við mbl.is að ekki hafi verið tekin ákvörðun um það hvort málinu verður áfrýjað til Landsréttar. Það verður væntanlega gert síðar í vikunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert