Málsaðilar tjá sig um kröfuna í fyrramálið

Málsaðilar fá tækifæri til að tjá sig um kröfu Vilhjálms …
Málsaðilar fá tækifæri til að tjá sig um kröfu Vilhjálms í Landsrétti í fyrramálið. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Dómsmál umbjóðanda Vilhjálms H. Vilhjálmssonar verður ekki tekið til efnislegar meðferðar í Landsrétti í bráð, nema Landsréttur samþykki kröfu Vilhjálms um að einn dómara í málinu, Arnfríður Einarsdóttir, segi sig frá málinu sökum vanhæfis.

Verði Landsréttur ekki við kröfunni verður niðurstaðan kærð til Hæstaréttar, að sögn Vilhjálms. Hann vildi annars ekki upplýsa um efnisatriði kröfunnar í samtali við mbl.is.

Fram kom á vef Ríkisútvarpsins í gær að í kröfunni væri meðal annars vísað til dóma Hæstaréttar í málum Ástráðs Haraldssonar og Jóhannesar Rúnarssonar, en íslenska ríkið var dæmt til að greiða hvorum þeirra 700 þúsund krónur í miskabætur vegna ólöglegrar málsmeðferðar við skipan dómara í Landsrétt.

„Málsaðilum verður gefinn kostur á að tjá sig um þessa kröfu í fyrramálið, þegar málflutningur átti að vera,“ segir Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar, í samtali við mbl.is.

Hann vildi ekki tjá sig nánar um efnisatriði kröfunnar eða það hvaða þýðingu þessi krafa gæti haft fyrir störf dómara við Landsrétt.

Látið reyna á lögmæti skipunarinnar

Dómarar málsins meta sjálfir hæfi sitt, en auk Arnfríðar eru það þeir Jó­hann­es Sig­urðsson og Þor­geir Ingi Njáls­son. Arnfríður er einn þeirra fjögurra dómara við Landsrétt sem skipaðir voru af Sigríði Á. Andersen án þess að hafa verið á meðal fimmtán efstu í hæfnismati sérstakrar hæfnisnefndar.

Heimildir mbl.is herma að meint vanhæfi Arnfríðar sé í kröfunni sagt vera vegna þess að skipun hennar sem dómara við Landsrétt hafi ekki verið lögum samkvæm.

Þannig virðist eiga að láta á það reyna hvort skipan dómara við réttinn standist lög, eða hvort mögulega megi véfengja úrlausnir þeirra og jafnvel ógilda á sama grundvelli síðar meir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert