Erfitt að samþykkja hækkun skatta

Óli Björn Kárason fyrir miðju.
Óli Björn Kárason fyrir miðju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tók þátt í því bæði sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar og sem stjórnarþingmaður að greiða atkvæði um skattkerfisbreytingar fyrir síðustu áramót. Það var mér erfitt,“ sagði Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag þar sem hann vakti athygli á frétt á vefsíðu Viðskiptaráðs þess efnis að frá árinu 2007 hafi verið gerðar 267 skattbreytingar hér á landi eða að meðaltali 24 á ári. Þar af hafi 200 hafa verið til hækkunar skatta en aðeins 67 til lækkunar þeirra.

„Það er auðvitað rétt sem Viðskiptaráð bendir á að við sem hér sitjum eigum greinilega auðveldara með að hækka álögur á fyrirtæki og einstaklinga en að lækka þær. Það er líka alveg ljóst að þegar við horfum á þá fjármálastefnu sem liggur fyrir þinginu er hlutur hins opinbera af þjóðarkökunni, sneiðin sjálf, að stækka. Það er áhyggjuefni,“ sagði Óli Björn. Sagði hann að erfitt hafi verið fyrir hann að samþykkja til dæmis hækkun fjármagnstekjuskattsins fyrir jól þó rök gætu verið fyrir því.

„En það gerði ég og greiddi því atkvæði og studdi í því trausti að við værum að fara inn í tímabil þar sem við myndum ná fram lækkun á neðra þrepi tekjuskattsins, hugsanlega umbylta tekjuskattskerfinu, ég tala nú ekki um að lækka hressilega tryggingagjaldið. Það eru loforð sem voru gefin og það eru loforð sem ég tek hátíðlega og voru forsenda þess að ég tók þátt í að greiða atkvæði með hækkun skatta fyrir áramót.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert