„Viðkvæm“ mál þögguð niður

Frummælendur á fundinum í morgun.
Frummælendur á fundinum í morgun. Ljósmynd/Hrafnhildur Hafsteinsdóttir

„Mér finnst eins og við séum stödd í hvirfilbyl og ég veit ekki hvert hann tekur okkur,“ sagði Helen Breiðfjörð, mannauðsstjóri Vodafone, á ráðstefnu um áhrif metoo á fyrirtækjamenningu sem haldin var á vegum fræðsludeildar Félags kvenna í atvinnulífinu í morgun.

Hún sýndi mynd þar sem sjá mátti starfsfólk Vodafone með Fokk ofbeldi húfur. „Þessi mynd lýsir viðhorfi Vodafone til ofbeldis og þetta er í eina skiptið þar sem það má segja „fokk“ á mínu heimili,“ sagði Helen.

Hún benti á að ef ofbeldi komi upp á vinnustað sé það ekki bara mál þolanda og enginn vilji starfa í vinnumenningu þar sem ofbeldi viðgangist.

Óheppilegt að grínast með metoo

Helen talaði um að sumir grínuðust með metoo byltinguna og að væntanlega væri það út af óöryggi viðkomandi. „Það er óheppilegt og ekki í boði að nota grín í þessari byltingu en ég held að flestir meini ekkert illa með því. Það þarf að leggja mat á aðstæður, hvenær megi grínast og hvenær ekki.“

Helen fjallaði um ósýnlega ofbeldið; tilfinningalega ofbeldið. Hún benti á að það væri lúmsk tegund ofbeldis og fólk áttaði sig oft ekki á því þegar því sé beitt. „Við heyrum oft: hættu að vera svona dramatísk, hættu þessu væli, hættu að vera svona reið. Svona samskipti meiða en okkur má alltaf líða eins og okkur líður,“ sagði Helen og bætti við að það ætti að takast á við ákvarðanir og verkefni en ekki hjóla í einstaklinginn.

Hún sagði að það væri gerð krafa um að fyrirtæki skapi umhverfi til menningarbreytingar. Þöggun og meðvirkni yrði ekki liðin. „Við þurfum að setja mörk og segja frá. Við höfum ekki þol fyrir hegðun sem áður var „samþykkt,““ sagði Helen.

Vilji sé til þess að byltingin lifi og skili breytingum en til þess segir Helen að þurfi aga, þol og þor. „Við viljum að það sé eðlilegt að virða mörk, segja frá ofbeldishegðun og koma henni upp á yfirborðið,“ sagði Helen en bætti við að næsta byltingin mætti ekki sópa metoo undir teppið.

„Metoo má ekki verða eitthvað sem gleymist.“

Konur voru í miklum meirihluta fundargesta.
Konur voru í miklum meirihluta fundargesta. Ljósmynd/Hrafnhildur Hafsteinsdóttir

Karlar hafa ekki þroskann

Gestur Pálmason markþjálfi ræddi sjónarhorn karla sem vilja taka ábyrgð í tengslum við #metoo byltinguna. Karlar þyrftu að sjálfsögðu að taka þátt en hann og séra Vigfús Bjarni Albertsson stofnuðu Facebook-hópinn #égertil. Þar eru karlar hvattir til að hlusta á konur í tengslum við #metoo.

Gestur sagði að þetta væri fyrst og fremst þroskamál og tók skemmtilegt dæmi, máli sínu til stuðnings. Hann sýndi bók sem var græn öðru megin og grá hinum megin. Hann sneri grænu hliðinni að salnum og spurði hvernig hliðin sem sneri að honum væri og allir sögðu „grá“ í kór.

Gestur benti á að fjögurra ára barn hefði sagt græn. „Það hefur ekki þroskann til að hugsa abstrakt. Það sama á við um karlmenn,“ sagði Gestur og þá var mikið hlegið í salnum.

Ásmundur Einar Daðason jafnréttisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson forseti.
Ásmundur Einar Daðason jafnréttisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson forseti. Ljósmynd/Hrafnhildur Hafsteinsdóttir

Eitthvert valdaójafnvægi í samfélaginu

Ásmundur Einar Daðason jafnréttismálaráðherra sagði að þrátt fyrir reglugerðir gegn ofbeldi á vinnustöðum væri víða pottur brotinn. Hann sagðist hafa haldið fyrir um 15 árum síðan að jafnrétti væri náð á Íslandi.

„Síðan hef ég eignast þrjár dætur og þá varð ég var við að staða þeirra er ekki jöfn við stöðu drengjanna,“ sagði Ásmundur.

„Það er eitthvert valdaójafnvægi og einhver menning sem hefur verið við líði í samfélaginu allt of lengi. Þessu skulum við breyta og það þarf að setja kraft í allt sem tengist jafnréttismálum,“ sagði Ásmundur.

Hann telur að þurfi að lengja fæðingarorlof og brúa betur bilið frá fæðingarorlofi til leikskóla. Það muni jafna stöðu kynja í atvinnulífi og á vinnumarkaði. „Ég vonast til þess að þegar dætur mínar komist út á vinnumarkaðinn að metoo umræðan verði óþörf því þær, eins og allar stúlkur þessa lands, eiga skilið sömu tækifæri og drengirnir.“

Fyrirtæki upptekin af ímynd

Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, sagði að þöggun í atvinnulífinu væri staðreynd og hefði verið lengi þegar kæmi að „viðkvæmum“ málum. Einnig væru ekki öll mál komin fram þó mörg hefðu komið fram í byltingunni.

Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu.
Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu. Ljósmynd/Hrafnhildur Hafsteinsdóttir

„Síðustu 15 ár höfum við verið góð í því að þagga niður mál. Við erum svo upptekin af ímynd fyrirtækja að við hugsum frekar um að dempa mál niður til að ímynd fyrirtækis haldi ósködduð út á við,“ sagði Rakel.

Hún tók dæmi um starfslokasamning við lykilstjórnanda í fyrirtæki þar sem verið væri að þagga niður viðkvæmt mál. Þá væri samið við viðkomandi að láta af störfum, viðkomandi „segði sjálfur upp“ eða samið væri um starfslokatímabil og starfslokakjör.

Einnig fengi viðkomandi oft hin bestu meðmæli. „Þar með þarf næsta fyrirtæki að glíma við vandamálin sem hafa fylgt þeim manni,“ sagði Rakel.

Í kjölfar #metoo byltingarinnar væri þetta einfaldlega ekki í boði og fyrirtæki þyrftu að verða heiðarlegri sín á milli.

Rakel sagði stöðu kvenna í litlum fyrirtækjum oft erfiðari, sérstaklega ef gerandi væri yfirmaður og/eða atvinnurekandi. Hún tók dæmi af manni sem henni var sagt að passa sig aðeins á árið 1990. Áratug síðar frétti hún að maðurinn hagaði sér enn eins.

Árið 2014 leitar kona til Rakelar sem var þá að hætta í stjórnendastarfi hjá manninum. „Ég áttaði mi9g á því að hann væri enn að. Þessi kona var þrítug og ég hugsaði „ætlar karlinn aldrei að hætta“? Konunni fannst hún vera heppin í svona góðu starfi eftir hrun og gekk vel í starfi. Hún var góð í því sem hún gerði en sögurnar voru hræðilegar.“

Konan sagði Rakel að það eitt að fara inn í kompu að sækja ljósritunarpappír væri hættulegt. Konan varð óvinnufær um tíma eftir að hún sagði frá málinu en hún brotnaði niður í kjölfar þess. „Ég sá síðan manninn síðast í nóvember fagna ráðningu ungrar konu í stjórnunarstarf í fyrirtækinu.“

Rakel sagði að vandamálið væri rótgróið og það þurfi að breyta mörgu. „Einnig er ég svolítið svekkt yfir því hversu fáir karlar eru hér í dag,“ sagði hún en fjöldi karlmanna var teljandi á fingrum annarrar handar. „Hlutfall karla og kvenna á að vera jafnt og við verðum að gera þetta saman.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert