Víðerni fái vernd í stjórnarskrá

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir mikilvægt að huga vandlega að …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir mikilvægt að huga vandlega að náttúruvernd við uppbyggingu innviða, m.a. ferðamannastaða. mbl.is/Eggert

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra leggur til að víðerni Íslands fái vernd í stjórnarskránni. Þá segir hann mikilvægt að gæta að verndun ósnortinna svæða við uppbyggingu innviða, m.a. vegna ferðamanna.

Þetta kom fram í ræðu ráðherrans við setningu ráðstefnu um víðerni sem fram fer í Odda í Háskóla Íslands í dag, sem ELSA Iceland stendur að. Á ráðstefnunni verður m.a. rætt um stað víðerna í lögum, skilgreiningu hugtaksins og skilning ólíkra aðila á inntaki þess.

Guðmundur Ingi minnti á að nýting náttúruauðlinda á Íslandi væri hornsteinn efnahagsþróunar og velferðar í landinu og hefði svo verið lengi. Nú blómstri ferðamennska sem byggi m.a. á náttúrunni og aðdráttarafli hennar sem aldrei fyrr og greinin orðin stór og mikilvæg tekjulind. Ferðamennskan geti hins vegar haft áhrif á víðernin og upplifun okkar af þeim. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra flutti ávarp við setningu ráðstefnu um …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra flutti ávarp við setningu ráðstefnu um víðerni sem fram fer í Odda í Háskóla Íslands í dag. mbl.is/Eggert

Ráðherrann sagði því mikilvægt að huga vandlega að náttúruvernd við uppbyggingu innviða, m.a. ferðamannastaða. Stefnumótun í þessu sambandi sé nú í vinnslu innan umhverfisráðuneytisins.

Guðmundur sagði að víðernin væru líklega meðal helstu náttúruauðlinda Íslands og að almenningur væri sífellt hlynntari frekari verndun miðhálendisins sem og annarra víðerna á landinu. Sagði ráðherrann það eitt af sínum forgangsverkefnum að vinna að stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og mögulega á öðrum svæðum. 

Í ræðu sinni minntist Guðmundur á fyrirhugaða endurskoðun stjórnarskrárinnar og nefndi að enn vanti í hana ákvæði um umhverfismál og náttúruvernd. Sagði hann það sína skoðun að viðurkenna ætti mikilvægi ósnortinnar náttúru fyrir komandi kynslóðir og því leggi hann til að sérstök ákvæði um verndun víðerna verði sett inn við endurskoðun stjórnarskrárinnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert