„Þetta er stórt og krefjandi verkefni“

Björgunarsveitarfólk að störfum á Hellisheiði Mynd úr safni.
Björgunarsveitarfólk að störfum á Hellisheiði Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

290 björgunarsveitarmenn hafa verið að störfum í dag í 98 hópum á 52 tækjum. Mikið er enn af verkefnum í uppsveitum Árnessýslu að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. „Það er mikið af bílum sem þarf að aðstoða þar,“ segir hann. „Svo var einnig hópur af bílum uppi á Mosfellsheiði og þar lenti líka veghefill útaf.“

Þeir bílar eru nú á leiðinni  niður af Mosfellsheiði, en búið er að senda fleiri björgunarsveitarhópa úr Reykjavík og austur fyrir fjall að aðstoða þar.

Davíð Már segir eitthvað um að bílar séu skildir eftir. „Einn bíll var skilinn eftir uppi á Mosfellsheiði, síðan var bíll sem þurfti á aðstoð að halda í Þrengslunum og nú er verið að ferja fólk úr rútu í Árnessýslu.“

Ekki öruggt að fólk sé að húka í bílunum

Hann segir aðstæðurnar vera nokkuð dæmigerðar fyrir það að fólk sitji bara fast í afleitu veðri. „Það sést varla milli vegastika á köflum og þetta er orðin strembin staða. Það er ekki talið öruggt að fólk sé að húka í bílunum og verkefni okkar er að koma fólkinu í burtu.“

Starfsfólk Rauða krossins er nú að nálgast Reykholt þar sem opna á félagsmiðstöðina í Aratungu sem fjöldahjálparmiðstöð. Fyrr í kvöld var fjöldahjálparmiðstöð opnuð á Selfossi og hafa björgunarsveitarmenn farið með ferðalanga þangað.

Davíð Már segir marga ferðalanga vera pikkfasta og allt sé ófært á leiðinni í Reykholt. „Í raun er þetta svæði bara lokað og menn eru að vinna úr stöðunni sem er þar. Það er engum bílum hleypt þangað inn nema þeir eigi erindi og það eru þá björgunarsveitirnar, Rauði krossinn og viðbragðsaðilar.“

Verða að störfum fram eftir nóttu

Ekki sé algengt að þessum vegum sé lokað en það hafi gerst að þessu sinni. „Þetta er stórt og krefjandi verkefni,“ segir hann og kveðst gera ráð fyrir að björgunarsveitir verði að störfum frameftir nóttu.“

Veður er farið að versna fyrir vestan og í Vatnskarði voru nokkrir bílar fastir um kvöldmatarleyti og hefur veginum verið lokað það.

Einnig er nú lokað samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar á Hellisheiði, Þrengslum, í Ölfusi frá Hveragerði að Þrengslum, Biskupstungnabraut, Mosfellsheiði, Kjósarskarð og Lyngdalsheiði, Fróðárheiði, Brattabrekka, Holtavörðuheiði, Þverárfjall, Öxnadalsheiði, Víkurskarð, milli Markarfljóts og Jökulsárlóns og þá er Súðavíkurhlíð er lokuð vegna snjóflóðahættu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert