„Sósíalistaríkisstjórn“ í boði B og D

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, sagði Vinstri græn ráða öllu …
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, sagði Vinstri græn ráða öllu í stjórnarsamstarfinu. mbl.is/Hari

„Vinstri græn ráða öllu. Þetta er sósíalistaríkisstjórn í boði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson um stjórnarsamstarfið á fyrsta flokksráðsfundi Miðflokksins, sem fram fer í nýjum húsakynnum flokksins við Suðurlandsbraut í dag.

Hann sagði þingmenn Sjálfstæðisflokksins í þinginu tippla á tánum í samstarfi við Vinstri græn og að stjórnarsáttmálinn væri „moðsuða“ þar sem erfitt væri að finna stefnumál Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Bergþór Ólason þingmaður tók í sama streng í sinni ræðu og sagði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra vera að kanna hversu mikið hún gæti „víkkað kokið“ á formönnum samstarfsflokkana, sem vildu alls ekki rugga bátnum af ótta við að hér springi enn ein ríkisstjórnin.

Formaðurinn raddlaus og hóstandi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er hálf raddlaus vegna veikinda og gat af þeim sökum ekki haldið þá ræðu sem hann ætlaði að halda á fundinum. Formaðurinn ákvað að eftirláta öðrum þingmönnum flokksins að ræða um stöðuna í pólitíkinni að þessu sinni, vegna eigin raddleysis. Hann sagði að fyrirhuguð ræða sín myndi nýtast í blaðagreinar og umræður í þinginu á næstu dögum.

Þá væri von á „töluvert langri, en vonandi ekki leiðinlegri,“ ræðu frá formanninum á landsþingi Miðflokksins, sem áætlað er að fari fram í mars.

Borgarstjóraefni flokksins ákaft fagnað

Þorsteinn Sæmundsson kom í pontu og sagði „þöggun“ vera ríkjandi í umræðu um nýja staðsetningu fyrir þjóðarsjúkrahúsið. Hann sagði fjölmiðla ekki hafa áhuga á því að fjalla um málið og að það væri einn hluti þöggunarinnar, sem hefði staðið yfir í langan tíma.

Miðflokkurinn tilkynnti í gær að Vigdís Hauksdóttir myndi leiða lista flokksins til borgarstjórnarkosninga í vor. Vigdís stýrir flokksráðsfundinum í dag og fékk þingmaðurinn Birgir Þórarinsson fundargesti til þess að gefa borgarstjóraefni Miðflokksins mikið lófaklapp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert