Eitthvað annað en peningar sem er að

Davíð Þorláksson, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins, segir stöðuna í menntamálum …
Davíð Þorláksson, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins, segir stöðuna í menntamálum á Íslandi vera grafalvarlega.

Staðan í menntamálum á Íslandi er grafalvarleg og það er í raun óskiljanlegt að ekki sé verið að rannsaka málið ítarlega, sagði Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnihæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni nú í morgun. „Við erum að dragast aftur úr öðrum þjóðum. Við erum með dýrasta grunnskólann en árangurinn er samt undir meðaltal, þannig að það er eitthvað annað en peningar sem er að,“ sagði Davíð.

Ástandið væri ekki hvað síst alvarlegt varðandi drengi, þar sem 30% drengja og 12% stúlkna geti ekki lesið sér til gagns.

„Jafnaðarmönnum er tíðrætt um jöfnuð og þarna er ein stærsta hættan á að búa til stéttskiptingu,“ sagði hann. Ljóst megi telja að þessi 30% sé ekki að fara að ná góðum árangri í námi. „Það þurfa allir að kunna að lesa sér til gagns, líka í iðnnámi. Þannig að það hefur slæm áhrif á lífsgæði þeirra“ Slíkt dragi úr hagvesti og sé vont fyrir þjóðina í heild.

Skúli Helgason borgarfulltrúi sagði ekki nýja fréttir þarna á ferðinni. „Þetta eru nokkurra ára gamlar upplýsingar en yfir lengra tímabil þá hefur leiðin á Íslandi legið niður á við og það er alveg tilefni til að bregðast við,“ sagði hann.

Sagði Skúli að þegar rýnt væri í tölurnar þá væri niðursveiflan hins vegar fyrst og fremst á landsbyggðinni. Staða barna af erlendum uppruna væri þá líka verri en íslenskra jafnaldra þeirra og það væri áhyggjuefni út frá jöfnuði. „Þarna höfum við ekki staðið okkur nógu vel,“ sagði Skúli.

Læsi- og menntun erlendra barna hafi verið efst á lista hjá sér er hann tók við sem formaður Skóla- og frístundasviðs. "Við tvöfölduðum fjármagn í íslenskukennslu og fengum inn aðila til að sjá um móðurmálskennslu erlendra barna,“ sagði hann.

„En við eigum að hafa metnað til að bæta okkar," bætti hann við. Mest hafi dregið úr árangri í náttúruvísindum, börn í Reykjavík eru hins vegar yfir meðaltali OECD ríkja í stærðfræði og rétt undir meðaltali í lesskilningi. „Staðan á landsbyggðinni er mun verri og þar þarf ríkið að grípa inn í. Við þurfum svo að taka á þessu okkar megin og ríki og sveitarfélög þurfa að vinna saman að þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert