Kvennaathvarfið ætlar að reisa 16 íbúðir

Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir. mbl.is/Eggert

„Þetta endurspeglar það sem ég hef haft áhuga á,“ segir Eygló Harðardóttir, fyrrverandi félags- og húsnæðismálaráðherra. Hún hefur verið ráðinn sem verkefnisstjóri hjá Kvennaathvarfinu þar sem hún mun vera í forystu í húsnæðissjálfseignastofnun sem Kvennaathvarfið hefur stofnað vegna áætlana um að byggja 16 íbúðir.

Eygló segist alltaf hafa haft áhuga á húsnæðismálum og ekki síst stöðu fólks sem á í hvað mestum vanda á húsnæðismarkaðnum. „Einnig snýst þetta um baráttuna gegn ofbeldi og hvernig við sem samfélag getum tekið á því og hjálpað þolendum,“ segir Eygló.

Borgin hefur úthlutað Kvennaathvarfinu lóð í miðhluta Reykjavíkur en Eygló segir að íbúðirnar séu hugsaðar sem millibilsástand. „Þessi hugmynd um millistigsúrræði kviknaði og þá gætu fjölskyldurnar, konurnar, flutt úr Kvennaathvarfinu í öruggt húsnæði og samhliða því náð að byggja sig upp þannig að þær fengju stuðning til að gera það sem þær vilja gera,“ segir Eygló og bætir við að konurnar geti þá verið á öruggum stað:

„Þar geta þær endurskipulagt fjárhaginn, náð að jafna sig og geta farið að huga að námi eða nýju starfi.“

Hún segir að konur sem hafa farið í gegnum ofbeldi í sambandi og tekið það skref að fara úr slíku sambandi séu gríðarlega sterkir einstaklingar. „Við viljum styðja þær eins vel og hægt er.“

Verið er að taka fyrstu skrefin í hönnun íbúðanna og Eygló segir að þegar framkvæmdaleyfi hefur verið samþykkt taki frá allt að því tvö ár að ljúka við byggingu húsnæðisins. „ Við vonumst til þess að verða komin með leyfi til að hefjast handa um mitt ár eða í haust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert