Snjór og hálka á höfuðborgarsvæðinu

Ruslakarlarnir eru eflaust ekki ánægðir með allan þennan snjó.
Ruslakarlarnir eru eflaust ekki ánægðir með allan þennan snjó. mbl.is/Hari

Veðurspár gera ráð fyrir áframhaldandi frosti í dag með lítilli úrkomu fram eftir degi. Víðast hvar verður vægt frost, nema á suðaustan- og austanlands en gert er ráð fyrir allt að tíu gráðu frosti í grennd við Kirkjubæjarklaustur síðdegis.

Búist er við éljagangi suðvestan- og vestanlands í kvöld og nótt en frost á höfuðborgarsvæðinu verður á bilinu ein til tvær gráður í dag og kvöld.

Aðstæður til aksturs eru víðast hvar ekkert sérstakar en árrisulir íbúar á höfuðborgarsvæðinu tóku eftir því í morgun að snjónum hafði kyngt niður í nótt. Aðstæður eru eftir því en víða er hálka og krap.

Á Suðurvestur- og Suðurlandi er snjóþekja og eitthvað um éljagang. Á Vesturlandi er hálka, snjóþekja og éljagangur. 

Á Vestfjörðum er hálka og snjóþekja en hálkublettir eru í Ísafjarðardjúpi. Á Norðurlandi vestra er víða orðið greiðfært en hálka er á Þverárfjalli og á útvegum, hálkublettir eru á Vatnsskarði.

Hálka er víða á Norðausturlandi en greiðfært er í Eyjafirði og yfir Víkurskarð. Hálkublettir eru á Tjörnesi og með ströndinni í Vopnafjörð. Á Austur- og Suðausturlandi er hálka, snjóþekja og éljagangur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert