Allt um aksturskostnað á nýjum vef

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Hari

Upplýsingar um aksturskostnað alþingismanna verða birtar á nýrri vefsíðu sem til stendur að búa til.

Þetta kom fram á fundi forsætisnefndar Alþingis í dag en þar var rætt um aksturskostnað í tilefni umræðunnar um akstur Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og greiðslur til hans tengdar honum.  

Að sögn Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata og 5. varaforseta nefndarinnar, var einnig rætt á fundinum um hvort Ásmundur hafi brotið siðareglur Alþingis með akstrinum, ásamt fleiru sem tengist siðareglunum.

Hann bendir á að hver sem er geti sent erindi til forsætisnefndar með rökstuðningi ef honum sýnist að þingmaður fari ekki eftir siðareglum.

„Forsætisnefnd hefur kallað eftir því að fá greinargerð, eins konar samantekt, frá skrifstofu Alþingis um það hvernig þessum reglum sem forsætisnefnd setti út frá lögum um þingfararkostnað hefur verið framfylgt af skrifstofu Alþingis. Það er okkar lögbundna skylda að fá það á hreint. Þá gæti komið í ljós að lögum hafi ekki verið fylgt, sem ýmislegt bendir til,“ segir Jón Þór.

Hann bætir við að aðalatriði sé að fólk beri ábyrgð á því ef það fer ekki að lögum og reglum, sér í lagi ráðamenn.

Um nýja vefinn segir hann tilganginn með honum vera góðan. Upplýsingarnar myndu liggja fyrir og landsmenn þyrftu ekki að tortryggja þær. Til þess þyrftu upplýsingarnar líka að vera mjög greinargóðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert