„Við erum að ræða almannahagsmuni“

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og Óli Björn Kárason, þingmaður …
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins,á Alþingi ásamt Steinunni Þóru Árnadóttur, þingmanni VG, Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Ég hélt í augnablik að ég væri kominn aftur í Icesave-umræðuna þar sem menn stóðu og vöruðu við því að farið væri gegn alþjóðavaldinu eða gegn stórum ríkjum og svo framvegis. Háttvirtur þingmaður Óli Björn Kárason stóð og flutti nákvæmlega sömu ræðuna og hefði verið hægt að flytja í Icesave-umræðunni allri saman.“

Þetta sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag þar sem hann ræddi fyrirhugaða sölu á 13% hlut ríkisins í Arion-banka. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sagði fyrr í umræðunni að salan byggðist á kauprétti Kaupþings samkvæmt samningi sem gerður hafi verið árið 2009. Hægt væri að hafa ólíkar skoðanir á þeim samningi en það væri engu að síður staðreynd að samningurinn hefði verið gerður.

Mikilvægt að virða gerða samninga

„Menn geta haft skoðanir á þessum samningi, hversu góður eða slæmur hann hafi verið, en ég vona að enginn háttvirtur þingmaður hér í salnum sé að hvetja til þess að íslenska ríkið standi ekki við þá samninga sem gerðir hafa verið, óháð því hvaða álit menn hafa síðan á gerðum samningum. Hvaða afleiðingar og hvaða skilaboð halda menn að það sendi erlendum aðilum og okkur öllum ef íslenska ríkið ætlar ekki að virða gerða samninga?“ spurði Óli Björn.

Gunnar Bragi sagði málflutning ríkisstjórnarinnar með ólíkindum og sakaði sjálfstæðismenn um að vera handbendi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í málinu sem hefði gert umræddan samning árið 2009 þegar flokkurinn var í ríkisstjórn með Samfylkingunni. Fullyrti hann ennfremur að vogunarsjóðirnir á bak við Kaupþing hefðu ekki staðið við sinn hluta samningsins og spurði hvort allir aðilar hans ættu ekki að gera það.

„Við erum að ræða almannahagsmuni. Það er staðreynd að inni í Arion banka er eitt stykki sem heitir Valitor sem er 60–70 milljarða virði. Eigið fé bankans er um 180 milljarðar. Nei, ríkisstjórnin ber sér á brjóst fyrir að hafa selt og fengið einhverja 23 milljarða, einhverja litla vexti á vonlausan samning sem var gerður 2009 af vinstri stjórninni, þáverandi stjórn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert