Íslendingar uppræti úrelt viðhorf

Rektor Háskóla Íslands flytur ræðu sína.
Rektor Háskóla Íslands flytur ræðu sína. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Rektor Háskóla Íslands sagði við brautskráningu 437 kandídata í dag að Íslendingar þyrftu að uppræta úrelt viðhorf, mannskemmandi venjur og þá valdníðslu sem afhjúpuð hefði verið á undanförnum mánuðum í samskiptum kynjanna.

Jón Atli Benediktsson rektor sagði þekkingu vera gjaldmiðil framtíðarinnar. „Rannsókna- og nýsköpunarstarf og markviss hagnýting rannsóknaniðurstaðna hefur fært okkur Íslendingum meiri hagsæld og meira öryggi en nokkurn hefur getað órað fyrir. Lífslíkur og lífskjör almennings hafa stórbatnað og tækifæri til menntunar og símenntunar margfaldast. Fleiri fá nú tækifæri til að finna og rækta hæfileika sína og hugsjónir en nokkru sinni fyrr,“ sagði rektor og kvaðst fagna því að stjórnvöld hefðu sett menntamál í forgang í stjórnarsáttmála sínum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

Rektor ræddi í ávarpi sínu þær ótal áskoranir sem mannkyn stæði nú frammi fyrir og til að kljást við þær þyrfti menntunin að varða okkur mönnunum leiðina. Hann vék sérstaklega að upplýsingamengun sem græfi undan lýðræði í heiminum og vélmennum sem leysa muni mannshöndina af hólmi í æ ríkari mæli.

„Síaukin söfnun auðs á fáar hendur ógnar félagslegu jafnvægi og vaxandi flóttamannastraumur eykur sundurþykkju í samfélögum heims. Til að takast á við áskoranir samtímans þurfum við öflugan Háskóla Íslands – skóla sem stenst samanburð við fremstu háskóla Norðurlanda og nýtur óskoraðs trausts hjá þjóðinni. Lyklarnir að friðsamlegri og farsælli framtíð eru menntun, nýsköpun, gagnrýnin hugsun, frelsi og víðsýni. Samskipti og félagshæfni eru forsenda fyrir því að miðla þekkingunni áfram og tryggja að sem flestir fái notið ávaxta vísindanna.“

Jón Atli benti á að í ár fagni Íslendingar aldarafmæli fullveldis og stofnun Háskóla Íslands árið 1911 hafi í raun verið rökrétt framhald af frelsisbaráttu Íslendinga. „Það er merkilegt hvernig frumherjunum tókst að sjá í hinum nýstofnaða skóla – hinum „minnsta og ófullkomnasta“ háskóla á byggðu bóli, svo enn sé vitnað til orða Björns M. Olsen – útlínur hins þróttmikla Háskóla Íslands sem við þekkjum í dag: Háskóla sem kveikir nýjar hugmyndir og bætir lífsgæði, háskóla sem skapar nýja þekkingu og veitir menntun og prófgráður sem eru gjaldgengar um víða veröld, háskóla sem er eftirsóttur þátttakandi í samstarfsneti bestu háskóla á alþjóðavísu, háskóla sem dregur að sér nemendur og starfsfólk hvaðanæva að, háskóla sem er mikilvæg undirstaða atvinnulífs og framfara.“ 

Þessu til stuðnings nefndi hann þær miklu framfarir sem orðið hefðu í íslensku samfélagi á starfstíma Háskóla Íslands, ekki hvað síst á sviði jafnréttismála. Hann sagði að karlar hefðu t.d. einir myndað fámennan kennarahóp Háskóla Íslands þegar hann tók til starfa fyrir röskri öld. Í fyrsta árgangi skólans hefðu verið 44 karlar og aðeins ein kona, Kristín Ólafsdóttir læknanemi. Hún brautskráðist fyrst kvenna frá Háskóla Íslands árið 1917. 

„Í vetur stunda yfir átta þúsund konur nám við Háskólann,“ sagði Háskólarektor, „og á síðasta ári brautskráðust yfir tvö þúsund konur frá skólanum. Fyrsta konan til að gegna prófessorstarfi við Háskóla Íslands var Margrét Guðnadóttir, prófessor við læknadeild, og hlaut hún þá nafnbót 58 árum eftir stofnun skólans. Margrét átti einstaklega farsælan kennslu- og rannsóknaferil við Háskóla Íslands en hún lést 4. janúar síðastliðinn.“

Jón Atli vitnaði í Leonard Cohen í ræðu sinni þar sem kanadíska söngvaskáldið yrkir um tilveru okkar mannanna sem aldrei er fullkomin.

Hringdu þeim klukkum sem enn fá ómað,

og gleymdu hvernig fullkomnun fær hljómað.

Það er brestur, brestur í öllu sem er til,

en ljósið brýst í gegnum það bil.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert