Um 600 styðja frumvarp um bann við umskurði barna

Um 600 hjúkrunarfræðingar hafa skrifað undir listann. Mynd úr safni.
Um 600 hjúkrunarfræðingar hafa skrifað undir listann. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 600 hjúkrunarfræðingar og ljósmæður hafa skrifað undir til stuðnings frumvarpi Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um að umsk­urður barna al­mennt verði bannaður með lög­um.

Íris Björg Bergmann Þorvaldsdóttir hjúkrunarfræðingur og Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, settu af stað undirskriftalista á fimmtudagskvöld. Þegar blaðamaður mbl.is náði tali af Írisi höfðu rétt um 600 hjúkrunarfræðingar og ljósmæður skrifað undir.

Of mikil áhætta miðað við að það sé óþarft

Sjálf hefur Íris haft mikinn áhuga á þessu málefni frá því árið 2008 þegar hún, sem nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur, er spurð af foreldrum nýfædds drengs hvar þau gætu fengið son sinn umskorinn. Hún fór í framhaldsnám í byrjun 2016 sem hún kláraði á síðasta ári og skrifaði lokaverkefni sitt um umskurð drengja.

Íris býr í Danmörku og hefur hún komist í kynni við málefnið af fyrstu hendi. Að sögn starfar hún á svæði þar sem talsvert er af fólki sem kemur frá menningarheimum þar sem umskurður drengja er algengur. „Ég var oft í þessari aðstöðu að þetta var ekki bannað en ég vissi hversu skaðlegt þetta gæti verið og hvaða áhætta væri fólgin í þessu,“ segir hún.

„Auðvitað er enginn að halda því fram að það sé 100% áhætta fólgin í þessu, en það er of mikil áhætta miðað við að þetta er algjörlega óþarft, sem sagt þegar þetta er gert án læknisfræðilegrar ástæðu,“ segir Íris. Einnig hafa rúm­lega 400 ís­lensk­ir lækn­ar lýst yfir ánægju með frum­varpið.

Móðir á Íslandi ætlaði að framkvæma umskurð sjálf

Hún segir það misskilning að umskurður drengja gerist ekki á Íslandi og hefur meðal annars undir höndum bréf sem faðir drengs ritaði í upphafi til Silju Daggar þingmanns. Hann vill ekki koma fram undir nafni en segir í bréfinu að frá því að sonur hans fæddist hafi bæði móðir drengsins og foreldrar hennar viljað láta umskera hann. Móðirin hafi ætlaði sjálf að sjá um umskurðinn og framkvæma hann á þeirra heimili á Íslandi.

Íris segir drenginn orðinn 7 ára í dag og enn sé verið að tala um að umskera hann og „ljúka þessu af“. 

„Þau eru ekki saman í dag en hann hefur stöðugar áhyggjur af þessu og hann hefur reynt að hafa samband við embætti landlæknis, umboðsmann barna, Barnaheill, barnaverndarnefnd og lögregluna til þess að vera viss um hver réttur hans væri, hver réttur barnsins væri og hvað færi í gang ef hún gerði þetta. Verða einhverjar afleiðingar fyrir hana? Og það hefur enginn getað virkilega svarað honum því,“ segir Íris.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert