Birta upplýsingar síðustu tíu ára

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Hari

Mikill samstaða er á meðal stjórnmálaflokkanna á Alþingi um að birta upplýsingar um þingfararkostnað þingmanna að minnsta kosti tíu ár aftur í tímann. Þetta segir Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, sem sæti á í forsætisnefnd en nefndin fundaði um málið í dag. Vefsíða með upplýsingum um málið verður opnuð á morgun.

Fyrst í stað verða upplýsingar um fastakostnað frá áramótum settar inn en í næstu viku verða upplýsingar um breytilegan kostnað settar inn að sögn Þorsteins. Vilji sé til þess að koma vefsíðunni í loftið sem fyrst í stað þess að bíða með að opna hana í næstu viku. Þorsteinn segir að hægt verði að fletta upp þingmönnum og skoða öll kjör þeirra.

„Það er næsta víst að þetta verður með þessum hætti. Það er það mikil samstaða um þetta að þetta verður svona. Það verða birtar upplýsingar að minnsta kosti tíu á aftur í tímann. Það er alveg klárt,“ segir Þorsteinn ennfremur. Í framhaldi af næstu viku verði síðan sífellt meira magn upplýsinga sett inn lengra aftur í tímann eftir því sem líður á árið.

„Við viljum auðvitað ekki sitja undir því að vera að fela eitthvað eða fara illa með,“ segir Þorsteinn og leggur áherslu á að allar greiðslur til þingmanna séu í samræmi við reglur sem byggi á þingskaparlögum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert