Smálán vaxandi vandi meðal ungs fólks

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Taka smálána er ört vaxandi liður í greiðsluerfiðleikum ungs fólks. Árið 2017 voru um 70% fólks 18-29 ára sem sóttu um ráðgjöf og greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara með smálán. Þetta er meðal þess sem kemur fram í greiningu umboðsmanns sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, óskaði eftir.

Ásmundur Einar segir í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag að markaðssetningu smálánafyrirtækjanna virðist beint að ungu fólki sem á erfitt með að fóta sig á þessum lánamarkaði og lendir í greiðsluvanda. „Þetta er veruleiki sem verður að bregðast við áður en staðan versnar enn frekar,“ segir í grein ráðherra.

Smálánaskuldir hækka en fasteignalánum fækkar

Í greiningunni kemur meðal annars fram að síðastliðin tvö ár hefur þeim sem leita úrræða hjá umboðsmanni skuldara vegna greiðsluerfiðleika fjölgað um tæp 25% og voru árið 2017 tæplega 1.440. Mest hefur fjölgað í aldurshópnum 18-29 ára og hlutfall smálána af heildarskuldum þessa aldurshóps hefur aukist umtalsvert.

Þá hafa fjárhæðirnar sem þessi aldurshópur skuldar vegna smálána einnig farið hækkandi. Árið 2016 nam fjárhæð smálána að jafnaði um 400.000 kr. hjá umsækjendum um greiðsluaðlögun en var tæpar 600.000 kr. árið 2017. Á sama tíma hefur dregið úr vægi fasteignalána síðastliðin tvö ár hjá þeim sem sækja um úrræði hjá umboðsmanni. Á sama tíma hefur hlutfall umsækjenda með smálán farið úr 13% í 43%.

Vill beina sjónum að starfsemi smálánafyrirtækja

Ásmundur Einar segir það aðkallandi að bregðast við til að sporna við því að ungt fólk í hópi þeirra tekjulægstu lendi í skuldavanda vegna lána sem það tekur í fljótræði án þess að gera sér grein fyrir kostnaðinum  og sjá fyrir afleiðingarnar. „Við þurfum að beina sjónum að starfsemi smálánafyrirtækjanna varðandi umgjörð og eftirlit og auka þarf fræðslu um fjármál svo ungt fólk verði betur í stakk búið til að taka fjárhagslegar ákvarðanir,“ segir Ásmundur Einar í grein sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert