Telur íslensk stjórnvöld hafa brugðist

Ljósmynd/Air Atlanta

Flugfélagið Air Atlanta hefur tekið þátt í vopnaflutningum frá ríkjum í Austur-Evrópu til Sádi-Arabíu sem undirverktaki flugfélagsins Saudia þaðan sem vopnin eru flutt til Jemens og Sýrlands þar sem átök hafa geisað sem bitnað hafa mjög á almennum borgurum. Þetta kom fram í fréttaskýringarþættinum Kveik í Ríkisútvarpinu í kvöld.

Enn fremur kom fram að um brot væri að ræða á bæði alþjóðlegum samningum og íslenskum lögum en Air Atlanta er íslenskt flugfélag og starfað samkvæmt leyfi hérlendra stjórnvalda. Bent var á að samkvæmt vopnasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 2014 væri bannað að vopna bardagasveitir sem brjóta gegn stríðsrétti líkt og í Sýrlandi og Jemen.

Fram kom einnig að rannsóknarblaðamannasamtökin OCCRP, rannsóknarstofnunin Conflict Armament Research og fleiri hafi rannsakað málið og komist að því að þorri vopnanna væri fluttur frá Búlgaríu, Serbíu og Slóvakíu. Haft er eftir Patrick Wilcken, sérfræðingi hjá mannréttindasamtökunum Amnesty International, að íslensk stjórnvöld hafi brugðist.

Haft var eftir Sigurði Inga Jóhannssyni samgönguráðherra að íslensk stjórnvöld hefðu ekki tök á að hafa eftirlit með því hvert farmur færi eftir að hann kæmi á áfangastað. Verið væri hins vegar að endurskoða reglugerð um vopnaflutninga þar sem taka ætti meira tillit til vopnasölusamnings SÞ. Mikilvægt væri að íslensk stjórnvöld sinntu sínum skyldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert