„Fléttan er öll að ganga eftir“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fléttan er öll að ganga eftir nákvæmlega á þann hátt sem varað var við. En íslensk stjórnvöld hafa hins vegar í hverju skrefi túlkað beiðni þessara aðila þeim í hag en túlkað rétt ríkisins á þann hátt að hann væri nú kannski takmarkaður. Það er þegar kemur að því að verja almannahagsmuni þá treysta menn sér ekki til þess, þá sjá þeir alla vankanta á því.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag þar sem hann ræddi sölu ríkisins á hlut sínum í Arion banka. Sagði hann það mat ráðgafa bankans að hægt væri að taka 80 milljarða króna út úr honum í formi arðgreiðslna sem væri á við einn nýjan Landspítala. Að auki væri komið á daginn að dótturfélög Arion banka væru mun meira virði heldur en þau væru skráð í bókum bankans.

„Þegar vogunarsjóðir, alræmdir vogunarsjóðir jafnvel, koma með kröfur um að snúið sé frá þeim áformum sem starfað hefur verið eftir hér undanfarin ár, þá treysta menn sér heldur ekki til þess að mótmæla því,“ sagði Sigmundur enn fremur og bætti við að það væri mikið áhyggjuefni að þjóðin sæti uppi með ríkisstjórn sem gæti ekki varið hagsmuni almennings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert