Óvíst hvort þrjátíu atkvæði náist

Þrjátíu atkvæði þarf til að samningum verði sagt upp í …
Þrjátíu atkvæði þarf til að samningum verði sagt upp í dag, en óljóst er hvort það náist. mbl.is/Kristinn Magnússon

Til þess að formannafundur ASÍ sendi þær leiðbeiningar til samningarnefndar sambandsins að segja eigi upp kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins þarf fyrir því meirihluta atkvæða á formannafundinum sem nú stendur yfir og formenn þurfa einnig að hafa meirihluta félagsmanna í launþegahreyfingunni á bak við sig.

59 formenn sitja fundinn og því þarf 30 atkvæði í aðra hvora áttina, en annað hvort verður samningum sagt upp í dag eða þeir halda áfram til áramóta. Atkvæðagreiðsla formanna á fundinum er rafræn og leynileg.

Tvö stærstu stéttarfélög landsins, VR og Efling, munu kjósa á móti því að samningar haldi fram til næstu áramóta. Þessi tvö félög hafa samanlagt yfir 60.000 félaga samkvæmt ársskýrslu forseta ASÍ fyrir árið 2017 og fara því nærri því að fara með atkvæði helmings félagsmanna innan vébanda sambandsins.

Því virðist spurningin einungis vera um hvort nægilegur fjöldi smærri félaga verður samþykkur því að segja samningunum upp í dag, en fram hefur komið að Verkalýðsfélag Akraness, Rafiðnaðarsamband Íslands, Stéttarfélagið Framsýn, AFL starfsgreinafélag, auk Eflingar og VR muni kjósa á þá leið að segja beri samningunum upp í dag.

Ólíkar væntingar fundarmanna 

mbl.is náði tali af Arnari G. Hjaltalín, formanni stéttarfélagsins Drífanda í Vestmannaeyjum þegar hádegishléi var að ljúka, en hann sagðist fullviss um að samningar myndu halda. Ekki væri meirihluti fyrir uppsögn þeirra. Af orðum hans mátti ráða að atkvæði Drífanda myndi falla á þá leið að samningar skyldu halda.

Það er þvert á orð Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar, formanns Rafiðnaðarsambands Íslands, sem sagðist í samtali við mbl.is í hádeginu nokkuð viss um að meirihluti yrði fyrir því að samningum yrði sagt upp í dag.

Gylfi Arnbjörnsson vildi ekki tjá sig um framgang fundarins í hádegishléinu þegar eftir því var leitað, en búist er við að niðurstaða liggi fyrir innan tíðar.

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags …
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness hafa báðir lýst því yfir að þeir vilji segja upp samningum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert