Ekki ráðherra að fara yfir farmskrárnar

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði fjármálaráðherra hvenær honum hefði verið …
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði fjármálaráðherra hvenær honum hefði verið kunnugt um vopnaflutninga Atlanta flugfélagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Heldur háttvirtur þingmaður virkilega að fjármálaráðherra sé að fara yfir farmskrárnar?“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í svari við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar. Logi gerði vopnaflutninga Air Atlanta flugfélagsins að umræðuefni sínu í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.  

Sagði Logi þögn fjármálaráðherra varðandi vopnaflutningana vera æpandi. Ráðherra „sjái enga ástæðu til að bregðast við þó að ríkisstjórnir sem hann hafi átt aðild að og stjórnað að miklu leyti hafi gefið heimild til að senda vopn til Sádi-Arabíu sem líkur séu á að séu áframsend til að slátra saklausu fólki, börnum og konu í Jemen og Sýrlandi.“

Samkvæmt lögum þá beri að hafa samband við utanríkisnefnd í meiriháttar málum sem tengjast utanríkismálum. „Þetta er óhjákvæmilega slíkt mál,“ sagði Logi og spurði ráðherra hvers vegna hann telji það ekki hafa verið gert.  

„Í ljósi ríkrar rannsóknarskyldu stjórnvalda, af hverju hefur málið ekki verið skoðað betur og upplýst í gegnum tíðina? Þar sem að hæstvirtur fjármálaráðherra er nú orðinn býsna þekktur af því að fela gögn og stinga skýrslum undir stól, af hverju ætti þjóðin að trúa því að hæstvirtur fjármálaráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra hafi ekki vitað neitt um málið?“

Eðlilegt að þingið leyti skýringa

Bjarni svaraði því til að málið verðskuldi að ómerkilegu skítkasti sé sleppt og að Logi blandi þarna saman óskyldum atriðum, sem ekki séu umræðunni til framdráttar. „Það er sjálfsagt og eðlilegt að þingið, á réttum vettvangi, spyrji spurninga og leiti skýringa á því hvernig svona hlutir gerast, hvað það er í stjórnkerfinu hjá okkur sem mögulega hefur farið úrskeiðis og leitt til þess að á vegum íslenskra aðila hafi verið flutt vopn sem að mögulega hafa ratað í hendur þeirra sem hér er vísað til.“

Sagðist Bjarna telja að menn verði gangast við því í um umræðu um mál af þessum toga og hvað þetta mál varði sérstaklega, „að við lifum í töluvert flóknum heimi og það er ekki einfalt fyrir íslenska stjórnsýslu  að komast til botns í sérhverju tilviki, en þegar um vopn er að ræða þá ættu menn svo sannarlega að fara varlega og gá að sér.“

Sagði Logi ráðherra geta kallað það sem hann vilji skítkast og spurði því næst hvenær ráðherra hafi vitað um flutningana. „Er trúverðugt að enginn ráðherra hafi vitað neitt í öll þessi ár og ef hann vissi það ekki þá átti hann að minnsta kosti að vita það,“ spurði Logi.

Kvaðst Bjarni ekki átta sig á því hvað Logi eigi þarna við. „Að ég sem fjármálaráðherra og eftir atvikum forsætisráðherra hafi átt að vita hvaða farmur var í einstökum flugvélum íslenskra lögaðila í útlöndum milli landa,“ sagði Bjarni. „Heldur hann virkilega að fjármálaráðherra sé að fara yfir farmskrárnar?“ Slík fullyrðing eigi sér engar stoðir „Það er augljóst að það hefur aldrei verið á mínu borði að fara yfir þau stjórnsýslulegu atriði sem þarf að gá að í þessum málum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert