Eitthvað sem fólk mátti kannski vita

Áslaug Arna Sigurjörnsdóttir, formaður utanríkisnefndar. Hún segir stjórnvöld og aðra …
Áslaug Arna Sigurjörnsdóttir, formaður utanríkisnefndar. Hún segir stjórnvöld og aðra vera sammála um að vilja gera betur, bæta úr og breyta bæði verklagi og reglugerðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Niðurstaða fundarins að okkar mati er að engir alþjóðasamningar hafi augljóslega verið brotnir, en að þetta sé þó eitthvað sem fólk hefði kannski mátt vita,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkisnefndar. Utanríkisnefnd og samgöngu- og umhverfisnefnd fengu Þórólf Árnason, forstjóra Samgöngustofu og Sigurð Inga Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra á sinn fund í morgun vegna vopnaflutninga Air Atlanta flugfélagsins.

Áslaug Arna segir stjórnvöld og aðra vera sammála um að vilja gera betur, bæta úr og breyta bæði verklagi og reglugerðum.

„Það var farið yfir málið með samgönguráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og Samgöngustofu. Niðurstaða fundarins að okkar mati er að engir alþjóðasamningar hafi augljóslega verið brotnir, en að þetta sé þó eitthvað sem fólk hefði kannski mátt vita,“ segir hún.

Nefndirnar hafi fengið mjög skýr svör frá bæði samgönguráðherra og forstjóra Samgöngustofu. „Hvernig verklag hefur verið, hvernig þessu hefur verið háttað í gegnum tíðina og hvernig þeir huga að því að gera betur og breyta,“ segir hún.

Teljum að við eigum að gera betur

Spurð hvort að þörf sé á lagabreytingum segist Áslaug Arna telja að svo sé ekki. „Það er frekar þörf á breytingum á verkferlum og reglugerðum okkar og hvernig við viljum hátta þessum málum.“

Þó að vopnaflutningar og jafnvel -sala til Sádí-Arabíu tíðkist í nágrannalöndunum, m.a. sumum Norðurlandanna, „þá teljum við að við ættum að gera mun betur en svo að leyfa þetta.“

Smári McCarthy, þingmaður Pírata og einn nefndarmanna í utanríkisnefnd, greindi frá því á Rás 2 í morgun að hann hafi vitað af vopnaflutningum íslenskra fyrirtækja í þrjú ár. Sagðist hann m.a. hafa undir höndum farmbréf sem tengist flugi með íslensku flugfélagi þar sem m.a. voru fleiri þúsund jarðsprengjur. Áslaug Arna segir þetta ekki hafa verið rætt á fundinum í morgun, en að Smári hafi nefnt þetta á fyrri fundi utanríkisnefndar um vopnaflutningana.

„Síðan eru vopnaflutningar ekki alltaf það sama og vopnaflutningar,“ bætir hún við og nefnir sem dæmi vopnaflutninga til hjálparsveita og friðargæsluliða. „Það er ekki það sama og til hryðjuverkamanna gegn óbreyttum borgurum.“ Kveðst Áslaug Arna ekki telja ástæðu fyrir utanríkisnefnd að funda með flugfélögunum að svo stöddu máli.

Hún segir nefndirnar telja sig hafa fengið góðar upplýsingar og að þær muni fá fleiri gögn og yfirlit frá ráðuneytunum til að skoða málin áfram. „Svo munum við fylgja eftir breyttu verklagi. Síðan mun samgöngunefnd líklega heyra frá samgönguráðherra um það hvernig hann hyggst breyta þessu, því að ráðuneytið vill koma nær ákvarðanatökunni og að það sé reglubundið,“ segir Áslaug Arna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert