Flokkurinn endurheimti fyrri stöðu sína

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, flytur setningarræðu sína.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, flytur setningarræðu sína. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum mætt aftur til leiks, ætlum okkur góðan árangur í sveitarstjórnarkosningum í vor og verða aftur sá burðarflokkur í íslenskum stjórnmálum sem almenningur í landinu þarfnast.“ Þetta sagði Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í lok setningarræðu sinnar á landsfundi flokksins á Reykjavík Natura nú síðdegis.

Þrátt fyrir reiðarslag í þingkosningunum haustið 2016 hefði Samfylkingin náð að lifa af meðal annars vegna þess að sveitastjórnarfólk flokksins hefði haldið fánanum á lofti. Á þeirra hefði það orðið miklu erfiðara. Hrósaði hann fundarfólki og sagðist ekki viss um að það gerði sér grein fyrir því hvaða þrekvirki það hefði unnið í þeim efnum.

Samfylkingarfólki hefði saman tekist að reisa flokkinn aftur upp á hnén og það ætlaði einnig upp á lappirnar. Samfylkingin hefði gullið tækifæri til sókna í sveitarstjórnarkosningunum í vor og afar mikilvægt væri að þeir framboðslistar sem hún ætti aðild að næði góðri niðurstöðu. Flokksins sjálfs vegna en fyrst og fremst vegna fólksins í landinu.

Ný stefna Samfylkingarinnar: „Eitt samfélag fyrir alla“ verður kynnt á …
Ný stefna Samfylkingarinnar: „Eitt samfélag fyrir alla“ verður kynnt á landsfundi flokksins um helgina. mbl.is/Árni Sæberg

Reykjavík breyst úr „umkomulitlum úthverfabæ“

Formaðurinn sagði að vart væri á neinn hallað að nefna sérstaklega borgarstjórnarflokk Samfylkingarinnar til sögunnar í þessum efnum. Reykjavík hefði breyst á vakt Samfylkingarinnar og Reykjavíkurlistans áður úr „umkomulitlum úthverfabæ“ í iðandi, nútímalega borg. Þar hefði þétting byggðar leikið lykilhlutverk.

Logi skaut hörðum skotum að ríkisstjórnina og sagði þar hverja vitleysuna reka aðra ólíkt því sem gerðist í Reykjavík. Ríkisstjórnin réði ekki við, eða hefði ekki áhuga á, að efla félagslegan stöðugleika. Sakaði hann stjórnina um leyndarhyggju og valdhroka sem væri hluti af gamaldags stjórnmálamenningu sem væri löngu tímabært að kveðja.

Logi sagði ennfremur í gamansömum tóni að undanfarið ár hefði innihaldið flest sem prýða gæti pólitíska sjónvarpsþætti og líklega væri einsdæmi að formaður á sínu fyrsta ári næði að sigla þremur stjórnarmyndunarviðræðum uppá sker. Sagðist hann lofa því að gerðist ekki aftur. 

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, er meðal flokksmanna sem sitja landsfund …
Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, er meðal flokksmanna sem sitja landsfund Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert