Úthlutar lóðum fyrir 1.173 íbúðir

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á kynningarfundinum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á kynningarfundinum. mbl.is/​Hari

Á fyrri hluta þessa árs gerir Reykjavíkurborg ráð fyrir að úthluta lóðum til uppbyggingar á 1.173 íbúðum. Þegar hefur verið úthlutað 440 íbúðum í Gufunesi. Í vor verða 392 íbúðir boðnar til sölu í útboðsferli. 341 íbúð verður í vor úthlutað til fasteignafélaga í tengslum við húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar.

Þetta kom fram á opnum fundi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um lóðaúthlutanir, uppbyggingu íbúða og atvinnustarfsemi í Ráðhúsi Reykjavíkur.

„Við erum að horfa á borg sem er á mesta uppbyggingarskeiði í sögu sinni,“ sagði Dagur og bætti við að vinnan tengd þessu hafi verið gríðarleg.

Á árinu verður leitað eftir samstarfsaðila á fjórum svæðum, í Gufunesi, Bryggjuhverfi III, Skerjafirði og á lóð Stýrimannaskólans.

Hluti af úthlutun ársins verður helgað verkefni borgarinnar um þróun á hagkvæmu húsnæði sem snýr að ungu fólki og fyrstu kaupendum.

Frá kynningarfundinum í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Frá kynningarfundinum í Ráðhúsi Reykjavíkur. mbl.is/​Hari

Metár í úthlutun lóða í fyrra

Metár var í lóðaúthlutunum í Reykjavík í fyrra. Alls var úthlutað 1.711 íbúðum.

Reykjavíkurborg hefur þar með úthlutað lóðum undir umtalsvert fleiri íbúðir en nágrannasveitarfélög hennar.

Reykjavík hefur úthlutað yfir 2.000 lóðum á árunum 2014 til 2017. Kópavogur hefur úthlutað 413 íbúðum, Hafnarfjörður 395, Garðabær 42 íbúðum og Mosfellsbær 200.

Á árinu 2017 voru samþykkt byggingaráform í Reykjavík fyrir um 247 þúsund fermetra og 1.133 þúsund rúmmetra fyrir allt húsnæði.

Uppbygging er í gangi á 3.200 íbúðum í Reykjavík á 33 mismunandi byggingarreitum um alla borg. Á síðasta ári var búið að afhenda um 480 íbúðir af 3.700 íbúðum á þessum reitum.

Framkvæmdaraðilar gera ráð fyrir að ljúka framkvæmdum við 770 íbúðir í ár.

Uppbygging í Vogabyggð og Vesturbugt 

Fyrir utan þessa 33 reiti á framkvæmdastigi er uppbygging að fara af stað á 12 nýjum reitum í borginni. Deiliskipulag hefur verið samþykkt, úthhlutun lóða er lokið og uppbyggingaraðilar eru tilbúnir í framkvæmdir.

Framkvæmdaraðilar á reitum sem fara fljótlega í uppbyggingu gera ráð fyrir því að afhenda 629 íbúðir á næsta ári og 761 árið 2020.

Á meðal reita sem borgarstjóri nefndi eru Vesturbugt, þar sem 176 íbúðir verða auk atvinnuhúsnæðis.

Á Barónsreit verða 57 íbúðir klárar árið 2020 og í Stakkahlíð verða 100 námsmannaíbúðir.

390 námsmannaíbúðir verða byggðar á Nauthólsvegi fyrir Háskólann í Reykjavík.

Á Kirkjusandi er búið að úthluta Bjargi og Brynju reiti, annars vegar fyrir 63 íbúðir og hins vegar 37 íbúðir.

Á Sléttuvegi verða 126 íbúðir á vegum Hrafnistu og í Vigdísarlundi hefur borgin úthlutað 15 íbúðum.

Eitt af stærstu svæðunum sem eru að fara í uppbyggingu er Vogabyggð. Í Hraunbæ verða 60 íbúðir fyrir aldraða.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á fundinum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á fundinum. mbl.is/​Hari

Hafa selt fyrir 3.2 milljarða í Gufunesi

Dagur nefndi svæði sem eru í þróun, þar á meðal í Gufunesi.  „Þarna er draumur að verða að veruleika,“ sagði borgarstjórinn.

„Við erum að horfa á íslenska kvikmyndagerð sameinast á einum stað.“

Uppbyggingaraðilar á svæðinu hafa þegar fengið úthlutað á árinu 440 íbúðum og 50 þúsund fermetra atvinnuhúsnæði.

Á svæðinu verða m.a. fyrirtækin RVK Studios, GN Studios, Kukl, Exton og Sonic.

Þegar er búið að selja fasteigna- og byggingarétt á svæðinu fyrir 3,2 milljarða króna. Einnig er verið að vinna að því að búa til ylströnd á svæðinu.

Einnig nefndi borgarstjóri Bryggjuhverfi III. Fyrsti áfanginn verður um 400 íbúðir. Síðari hlutinn bíður á meðan unnið er að landfyllingu.

Jafnframt er reiknað með um 700 íbúðum í Skerjafirði. 

Hluti af svæðunum sem eru í uppbyggingu í Reykjavík.
Hluti af svæðunum sem eru í uppbyggingu í Reykjavík. Kort/Reykjavíkurborg

17 þúsund fermetrar í Grósku

Dagur nefndi einnig reiti sem eru í uppbyggingu í atvinnuhúsnæði. Þar á meðal verður 17 þúsund fermetra skrifstofuhúsnæði í Grósku í Vatnsmýrinni.

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert