Samfylkingin beini spjótum sínum í minni mæli að VG

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, á landsfundi flokksins.
Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, á landsfundi flokksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég tel líka rétt að Samfylkingin beini spjótum sínum að Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, spillingarflokkunum, en í minni mæli að Vinstri grænum, þó að þeir hafi um stund villst af leið,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, í ávarpi á landsfundi flokksins í dag. 

„Þeir eru okkar samherjar og geta orðið það fyrr en okkur órar fyrir því ég hef enga trú á að þessi ríkisstjórn sitji út kjörtímabilið.“

Jóhanna sagði að óþolandi væri fyrir íslenska þjóð að Ísland væri talið spilltast Norðurlanda vegna fárra einstaklinga sem ekki gætu haft taumhald á græðgi sinni. 

„Það sem veldur vonbriðgum er að stjórnvöld virðast ekkert hafa lært af hruninu. Þau hafa frekar farið skref aftur á bak en áfram, verulegir siðferðisbrestir og leyndarhyggja virðist á litlu undanhaldi og græðgin hefur ekkert hopað fyrir réttlátara samfélagi. Siðrof milli þings og þjóðar er algjört og þar höfum við verk að vinna.“

Skaut á Ásmund

Jóhanna sagði fátækt í samfélaginu enn allt of mikla og að það væri til skammar hversu mörg börn byggju við mikla fátækt. 

„Og það er líka til skammar að það taki fjölda lífeyrisþega tvö ár að ná sömu fjárhæð til framfærslu og Ásmundur Friðriksson hefur bara í bílastyrk skattfrjálst á einu ári.“

Að mati Jóhönnu er Samfylkingin aftur á leið að verða burðarflokkur í íslenskum stjórnmálum og sér hún mikil sóknarfæri. 

„Allir flokkar sem hafa boðið fram frá árinu 2013 hafa lagt höfuðáherslu á jöfnuð og velferð í kosningabaráttum en flestir gleymt þeim kosningaloforðum um leið og kjörstöðum er lokað. Þar liggja sóknarfæri okkar jafnaðarmanna.“

Samfylkingin of hrædd við að skilgreina sig til vinstri

Þá telur hún að of lengi hafi Samfylkingin verið hrædd við að skilgreina sig sem jafnaðarflokk og vinstriflokk. 

„Því miður höfum við of mikið verið að reyna að sanna að við séum líka hægra megin við miðjuna. Skýrleikann hefur því vantað en þetta hefur breyst sem betur fer.“

Jóhanna kallaði eftir því að rannsókn færi fram á samþjöppun eigna og valds í samfélaginu á undanförnum árum og afleiðingum þess fyrir heildarhagsmuni. „Það mun leiða ýmislegt athyglisvert í ljós.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert