Konur hætti að bíta á jaxlinn

Þórunn Sveinbjarnardóttir talaði um áhrif #metoo-byltingarinnar á landsfundi Samfylkingarinnar í …
Þórunn Sveinbjarnardóttir talaði um áhrif #metoo-byltingarinnar á landsfundi Samfylkingarinnar í dag. mbl.is/Golli

Hver einasta kona rétti upp hönd á landsfundi Samfylkingarinnar þegar Rósanna Andrésdóttir, verkefnastjóri Ungra jafnaðarmanna, bað konur í salnum sem hefðu upplifað kynferðislega áreitni eða ofbeldi að rétta upp hönd.

Rósanna tók þátt í pallborðsumræðum um #metoo-byltinguna sem fram fóru á hádegisfundi landsfundar flokksins sem fer fram um helgina. Þórarinn Snorri Siggeirsson, nýkjörinn ritari Samfylkingarinnar, stýrði umræðunum og auk Rósönnu tóku Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi ráðherra og þingmaður flokksins, og Tómas Guðjónsson, verkefnastjóri flokksins, þátt í umræðunum.

Þórarinn Snorri Siggeirsson (t.v) stjórnaði umræðum um #metoo-byltinguna á landsfundi …
Þórarinn Snorri Siggeirsson (t.v) stjórnaði umræðum um #metoo-byltinguna á landsfundi Samfylkingar í dag þar sem Tómas Guðjónsson og Rósanna Andrésdóttir voru meðal þáttakanda. Ljósmynd/Samfylkingin

Heppin að hafa lent bara í þessu „venjulega

„Ég held að þetta sé byrjunin á einhverju sem tekur mjög langan tíma. Við viljum oft að þegar við setjum okkur í einhvern gír að allt sé bara komið,“ sagði Þórunn. Hlutirnir séu hins vegar ekki svo einfaldir og benti Þórunn að #metoo-byltinginn veitti Samfylkingunni, og þjóðfélaginu öllu, tækifæri sem þyrfti að nýta mjög vel. Ég var meira og minna í rusli þegar ég las frásagnir kvenna í þeim hópum sem ég var í. Það er sársaukafullt að rifja upp eitthvað sem þú vilt gleyma en það er hluti af því hver þú ert,“ sagði Þórunn.

Sjálf sagði hún að hún teldi sig tiltölulega heppna þegar kæmi að kynferðislegri áreitni. „Ég hef bara lent í þessu venjulega, jaðarsetningunni. En það sem gerist núna er að það sýður upp úr kraumandi potti. Áður fyrr átti að bíta á jaxlinn og segja ekki frá, gera allt eins og strákarnir og þá átti allt að ganga vel.“

Þórunn telur að það sé hlutverk Samfylkingarinnar að tileinka sér nýtt verklag. Slíkt var kynnt á fundinum fyrr í dag.

Frétt mbl.is: Stefna um einelti og áreitni í kjölfar #metoo

„Ég held að við gerum það sem stjórnmálahreyfing að fara inn í verklagið. Ef eitthvað kemur upp á er tekið á því strax. Mesta breytingin núna er að þú getur stigið fram og þér er trúað. Það er kominn tími til að gerendurnir fatti að það er ekki lengur staðið með þeim,“ sagði Þórunn.

Hún sagði jafnframt að það væri mikilvægt að viðurkenna vandann. „Við skulum ekki halda að þetta sé skárra í Samfylkingunni því við séum svo miklir femínistar, við vonum að það sé skárra, en við getum ekki gefið okkur það.“

Frá landsfundi Samfylkingarinnar sem stendur yfir um helgina.
Frá landsfundi Samfylkingarinnar sem stendur yfir um helgina. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert