Þrýstist upp í gegnum klæðninguna

Starfsmenn Vegagerðarinnar vinna hér að viðgerði á stórum holum í …
Starfsmenn Vegagerðarinnar vinna hér að viðgerði á stórum holum í Vesturlandsvegi í kjölfar vatnsveðurs. mbl.is/Árni Sæberg

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur birtir pistil á Facebook-síðu sinni undir heitinu „Hlákan verður okkur dýrkeypt“ þar sem hann útskýrir veðurfarslegar ástæður þeirra miklu skemmda sem orðið hafa á vegum landsins undanfarið.  

Segir Einar að eftir að það hlýnaði fyrir síðustu helgi hafi undirlag margra vega náð að þiðna, mögulega niður í 10 til 20 sm undir malbikinu. „Fyrr í vetur, einkum seint í nóvember og aftur í janúar náði í kuldatíð þá að frjósa allt niður á 100 sm dýpi,“ segir Einar í færslu sinni.

„Þegar þyngri ökutæki keyra eftir vegunum við þessar aðstæður þrýstist vatnið upp í gegnum klæðinguna þar sem íslagið neðar lokar af fyrir ísig. Þegar vatnið frá þiðnandi veginum þrýstist upp koma sprungur (sk. tíglar) í malbikið. Nokkrum bílum síðar byrjar að brotna upp úr þessu og framhaldið þekkjum við.“

Tjónið sennilega mjög mikið

Þetta sé ástæða þess að margir lengri og styttri vegakaflar hafi nú farið mjög illa á innan við viku, ekki hvað síst eftir að hitinn fór í 6 til 8 stig. „Tjónið er áreiðanlega mikið, sennilega mjög mikið og hleypur væntanlega á hundruðum milljóna þegar allt er talið jafnvel milljörðum þar sem ástand sumra veganna var fremur bágborið fyrir. Kemur smám saman í ljós og ekki allt búið enn. Reyndar frystir aftur í vikulokin.“

Birkir Hrafn Jóakimsson, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, segir í samtali við mbl.is erfitt að spá um hvort ástand vega eigi eftir að versna. „Það fer eftir því hvað frostakaflinn nú verður mikill og hvernig þiðnunin verður og hvort henni fylgir mikið vatnsveður,“ segir Birkir. „Þetta fer bara eftir veðri.“

Starfsmenn borgarinnar fylla í holur í hringtorginu á mótum Hamrahlíðar …
Starfsmenn borgarinnar fylla í holur í hringtorginu á mótum Hamrahlíðar og Lönguhlíðar í í Reykjavík. Haraldur Jónasson/Hari



Einar bendir á að Vegagerðin reki allmarga frost- eða þíðumæla, sem nái niður á 110 sm dýpi  og að með þeim megi mæla ís og bleytu í vegum. Birkir Hrafn segir Vegagerðina fylgjast vel með frostdýpt í vegum. „Við erum með frostdýptarmæla og fylgjumst með þessu,“ segir hann. „Þetta er grundvöllurinn fyrir þungavigtartakmörkununum sem við setjum á vorin. Það er þessi þíða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert