Segir dómarana eflaust dæmda vanhæfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir segir réttaróvissu vera til staðar, burtséð frá …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir segir réttaróvissu vera til staðar, burtséð frá niðurstöðu Hæstaréttar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ber fullt traust til allra ráðherra í ríkisstjórninni, þar á meðal dómsmálaráðherra. Þá ber forsætisráðherra einnig almennt traust til dómstóla í landinu. Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Helga Vala spurði Katrínu hvort hún hefði ekki áhyggjur af því að dómskerfið væri laskað vegna þeirrar óvissu sem hefði skapast í íslensku réttarkerfi vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra að ganga fram hjá mati hæfnisnefndar við skipun dómara í Landsrétt.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vísaði Helga Vala til þeirra dómsmála sem hefðu skapast í kjölfarið og væru nú til umfjöllunar hjá íslenskum dómstólum, en um er að ræða dómsmál er varða hæfi dómara sem dómsmálaráðherra skipaði og skaðabótamál umsækjenda sem gengið var framhjá.

Benti hún á að ef málin færu alla leið til Mannréttindadómstóls Evrópu þá gæti skapast mikil réttaróvissa næstu tvö árin. Þá gæti skaðabótaskylda ríkisins einnig orðið mikil.

Katrín sagði hins vegar ekki rétt að hún tjáði sig um dóma áður en þeir féllu. Sagði hún jafnframt mikilvægt að dómsvaldið fengi að ljúka sinni umfjöllun án þess að framkvæmdavaldið gripi inn í.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði Mannréttindadómstól Evrópu eflaust koma til með að dæma dómarana við Landsrétt vanhæfa. Sagði Þórhildur réttaróvissu vera til staðar burtséð frá niðurstöðu Hæstaréttar í málunum, enda hafi fyrirséðar efasemdir verið uppi um hæfi dómara.

Helga Vala Helgadóttir.
Helga Vala Helgadóttir. mbl.is/​Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert