„Áhugaverð hótun til þjóðarinnar“

Björn Leví Gunnarsson.
Björn Leví Gunnarsson. mbl.is/Eggert

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, gerði á Alþingi grín að orðum sjálfstæðismannsins Páls Magnússonar frá því í Kastljósi í gær. Páll sagði þá að stjórnarandstaðan ætti að bíða með vantrauststillögu því ráðherrar ættu eftir að gera stærri mistök en að klúðra skipun dómara í heilt nýtt dómstig.

Þetta er mjög áhugaverð hótun til þjóðarinnar. Stærri mistök eru á leiðinni,“ sagði Björn en eins og áður hefur komið fram hafa Píratar og Samfylkingin lagt fram vantrauststillögu á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra. Tillagan verður tekin fyrir á þingi síðdegis.

Björn Leví velti einnig fyrir sér ábyrgð ráðherra í málinu. „Ekki er ráðherra að greiða þær miskabætur sem hún olli úr eigin vasa. Þær eru greiddar úr ríkissjóði, vasa allra landsmanna. Þar geldur almenningur fyrir persónulega geðþóttaákvörðun ráðherra. Hér hefur nefnilega áður verið spurt: Hvað væri öðruvísi ef ráðherra bæri ábyrgð? Væri þá kannski annar ráðherra en þingmaðurinn Sigríður Á. Andersen?

Hann sagði að þingmenn yrðu að grípa inn í þegar ráðherra færi gegn áliti sérfræðinga, viðvörunum þingmanna og bryti lög um skipun dómara. „Hún viðurkennir að það hafi verið hennar ákvörðun og að ábyrgðin sé hennar en gerir svo ekkert til að axla þá ábyrgð, verður þingið þá ekki að stíga inn í? Ef það er ekki vantraustsvert að klúðra skipun heils dómstigs, hvað er það þá?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert