Vilhjálmur og Ragnar á kosningavöku B-listans

Verkalýðsforkólfarnir Vilhjálmur Birgisson og Ragnar Þór Ingólfsson eru staddir á …
Verkalýðsforkólfarnir Vilhjálmur Birgisson og Ragnar Þór Ingólfsson eru staddir á kosningavöku B-listans. mbl.is/Hari

„Hér eru allir mjög spenntir og bíða eftir því hvort það séu að verða miklar breytingar í íslenskri verkalýðsbaráttu. Það er bara þannig,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem staddur er á kosningavöku B-listans sem býður sig fram í stjórnarkjöri Eflingar. Kosningavakan er á Bryggjunni brugghúsi úti á Granda.

Hann segist hafa mjög góða tilfinningu fyrir því að B-listinn fái meirihluta atkvæða í kosningunum, en talning atkvæða stendur nú yfir. „Ég er sannfærður um það,“ segir Vilhjálmur.

„Ég heyri ekki annað en að íslenskt verkafólk vilji fá breytingar þar sem farið verði með markvissari og róttækari hætti í að laga kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.“

Mbl.is ræddi einnig við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formannsefni B-listans, fyrr í kvöld en hún beið spennt við símann eftir því að vera boðuð í húsakynni Eflingar þar sem úrslitin verða kunngjörð að talningu lokinni.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er einnig staddur á kosningavökunni, en hann hefur lýst yfir stuðningi við B-listann.

Það var minna stuð hjá Ingvari Vigur Halldórssyni, formannsefni A-listans, en hann lá heima í sófa þegar blaðamaður náði tali af honum. Sagðist hann bíða rólegur eftir símtalinu frá kjörstjórn. Sagðist hann vera á „kosningasofu“ ekki kosningavöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert