Fjölmenningin er staðreynd nútímans

Faisal Bhabha segir að Íslendingar eigi eftir að upplifa núninginn …
Faisal Bhabha segir að Íslendingar eigi eftir að upplifa núninginn sem fylgir því að breytast í fjölmenningarsamfélag á næstu árum og áratugum. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Innflytjendur á Íslandi voru þann 1. janúar 2017 alls 35.997 talsins eða um 10,6% íbúa landsins. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands til ársins 2065 mun hlutfall innflytjenda hækka enn frekar á næstu áratugum. Dr. Faisal Bhabha, dósent við Osgoode Hall Law School í Toronto í Kanada, hélt fyrirlestur á Jafnréttisþingi í vikunni og bar yfirskriftina „Að skapa samfélag án mismununar“.

Þar ræddi hann um þær áskoranir sem felast í því að búa í fjölmenningarsamfélagi eins og Kanada. Hans sérsvið innan fræðanna eru mannréttindalög og fjölmenning og í samtali við mbl.is segir hann að þrátt fyrir að Kanada sé í hugum margra dæmi um fyrirmyndar fjölmenningarsamfélag, sé alltaf einhver núningur á milli mismunandi hópa.

Sá núningur segir hann að muni koma fram hér á landi á næstu árum og áratugum, eftir því sem samfélagið verði fjölbreyttara. Umræðan um umskurð drengja sem farið hefur fram hér á landi undanfarnar vikur sé ekki sú síðasta af svipuðum toga sem skjóta muni upp kollinum.

„Fjölmenningarsamfélag virka ekki eins og lítil einsleit samfélög,“ segir Bhabha og bætir við að hugsa þurfi um stjórnun samfélagsins og „pólitíska verkefnið“ á allt annan hátt þegar einstaklingar sem mynda samfélagið séu ólíkir á marga vegu.

„Þetta er það sem ég heyri að Ísland standi frammi fyrir, að það sé að breytast frá litlu einangruðu ríki sem hefur ekki upplifað mikil utanaðkomandi afskipti yfir í sífellt margbreytilegra ríki. Samfélög sem eru vön einsleitni eru ekki vön því að þurfa að gera ráð fyrir mismunandi hópum.“

Fjölmenningin staðreynd sama hvað fólki finnst

Hann segir umræðu um þessar yfirvofandi samfélagsbreytingar vera eins eða allavega sambærilega hvar sem fæti sé stigið niður og að hann hafi heyrt svipaða hluti á Íslandi og annars staðar.

„Það er hópur fólks sem segir að samfélagið verði betra eftir því sem það er fjölbreyttara. Það eigi eftir að auðga menninguna, gera framtíð barnanna betri, efnahaginn öflugri og „genalaugina“ stærri,“ segir Bhabha og bætir því síðan við hlæjandi að hann hafi heyrt að hér á landi sé ef til vill ekki vanþörf á því síðastnefnda.

Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum undanfarna áratugi. Innflytjendum fjölgar …
Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum undanfarna áratugi. Innflytjendum fjölgar ört og því fylgja breytingar. mbl.is/Hari

„En síðan er hópur sem sér hina hliðina. Þeir munu segja að aukinn margbreytileiki muni hafa slæmar afleiðingar fyrir samfélagið. Fjölmenning muni eyðileggja tungumálið, skemma hefðirnar og skapa átök og flokkadrætti í samfélaginu sem aldrei hafi verið til staðar áður. Þá muni spurningin verða, „af hverju ættum við að leyfa þessu að gerast?“

Að sögn Bhabha er síðan enn einn hópur sem mun segja að hvort sem fólki líki það eður ei, sé fjölmenning orðin staðreynd og ekkil lengur einhver hugmyndafræðileg spurning sem fólk geti tekið afstöðu til.

„Sama hvað fólki finnst, þá þetta að gerast og þetta mun breyta menningunni. Ég held reyndar að menning sé alltaf að taka breytingum. Ég var að tala við íslenskan mann á sextugsaldri í gær og hann var að lýsa því fyrir mér hvernig aðstæður voru þegar hann var að alast upp, samanborið við nútímann og það hljómaði eins og tvö ólík lönd. Þrátt fyrir að settir séu upp veggir til að hindra innflytjendur, mun menningin alltaf breytast,“ segir Bhabha.

Skapa rými fyrir ólíka hópa

Í fyrirlestri sínum ræddi Bhabha um það hvernig kanadískt samfélag og lagaramminn þar í landi hefur tekið á menningarmun mismunandi hópa. Hann segir að til þess að tryggja jafnrétti allra þurfi lögin stundum að vera sterk og stundum veik.

„Við höfum skapað rými í samfélaginu þar sem almenn mannréttindalög eru ekki í gildi,“ segir Bhabha og nefnir sem dæmi að í Kanada hafi trúfélög rétt til þess að meina samkynhneigðum að ganga í hjónaband.

„Ef þú neyðir prest til þess að gifta tvo menn, þrátt fyrir að hann vilji það ekki, þá ert þú að valda þeim presti og þeirri kirkju meiri skaða en samkynhneigða parinu, sem getur alltaf fundið sér aðra kirkju eða gengið í borgaralegt hjónaband.“

Erindi Dr. Bhabha á Jafnréttisþingi snerist meðal annars um þær …
Erindi Dr. Bhabha á Jafnréttisþingi snerist meðal annars um þær áskoranir sem fjölmenning skapar löggjafanum. mbl.is/Hanna

Þannig sé hægt að nota lögin á tvo vegu, annars vegar sterk lög sem tryggi öllum rétt til þess að giftast, en hins vegar veik lög, sem tryggi trúfelögum rétt til þess að ráða því hverja þau gefi saman í hjónaband.

Annað dæmi um það hvernig réttindi hópa geta tekist á fyrir lögum og Bhabha nefnir er mál transkonu sem sótti um starf á neyðarmóttöku fyrir kvenkyns þolendur kynferðisofbeldis, umdeilt mál sem átti sér stað fyrir um 15 árum síðan.

Atvinnuumsókn hennar var vísað frá, þar sem neyðarmóttakan taldi að ekki væri rétt að ráða aðra í vinnu en þá sem hefðu fæðst sem konur, þar sem skjólstæðingarnir hefðu leitað þangað vegna ofbeldisfullra karlmanna. Hæstiréttur í Kanada úrskurðaði að neyðarmóttökunni væri leyfilegt að mismuna transkonunni á þennan hátt.

„Röksemdirnar voru þær að neyðarmóttakan þyrfti að tryggja að í sínu rými væri enginn vafi um kyn þjónustuveitandans. Þetta var mjög umdeilt mál sem fór til hæstaréttar vegna þess að tvö dómstig komust að mismunandi niðurstöðum og ég held að ef þetta yrði tekið fyrir í dag myndi niðurstaðan verða önnur. Réttindi transfólks eru orðin sterkari,“ segir Bhabha.

Hann segist þó ekki fullviss um að niðurstaðan yrði önnur og ekki heldur viss um að hún yrði „betri“.

„Ég get skilið að neyðarmóttaka sem tekur á móti konum vilji einungis hafa konur í vinnu sem fæddust konur, en núna þegar kynvitund og kyntjáning hafa hlotið lagavernd, er þetta mismunun. Þetta er vandamálið við það þegar réttindi ólikra hópa takast á og ég held að Ísland sé að fara inn í erfitt tímabil þegar kemur að jöfnum réttindum allra, einmitt vegna sambærilegra dæma.“

„Hættuleg stöðutaka“ að gera umskurð refsiverðan

Blaðamaður sagði Bhabha frá þeirri umræðu sem hefur skapast um umskurð drengja hérlendis undanfarnar vikur í kjölfar frumvarps til breytinga á almennum hegningarlögum. Fljótlega greip Bhabha þó inn í og sagðist hafa heyrt nánast allt um þetta mál í samræðum við Íslendinga undanfarna daga, enda er umskurður mál sem hann hefur skoðað sjálfur.

„Ég hef fylgst með og stúderað andstöðuhreyfingar sem eru gegn kynfæraskurði kvenna og sömuleiðis risi mun smærri en þó háværrar alþjóðlegar andstöðuhreyfingar gegn umskurði drengja sem samanstendur aðallega af vísindamönnum og heilbrigðisstarfsmönnum sem segja umskurð drengja alveg eins slæman og umskurð stúlkna,“ segir Bhabha.

Margir innan þeirrar hreyfingar hafa verið umskornir sjálfir að sögn Bhabha og líta á það sem svo að umskurður á unga aldri hafi brotið gegn líkamlegri friðhelgi þeirra.

"If the goal is integration, the rule should be accommodation," sagði Babha um aðlögun innflytjenda að samfélögum. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Það er ekki mitt að segja þeim að þeir hafi rangt fyrir sér, en sem stefnumótun af hálfu ríkisvaldsins verð ég að segja að þetta er mjög hættuleg stöðutaka, sérstaklega fyrir ríki sem er að opna landamæri sín,“ segir Bhabha.

Hann bendir á að í gyðingdómi sé umskurður gríðarlega helg athöfn og mikilvæg. Einnig sé umskurður mikilvægur múslimum, þrátt fyrir að þar sé aðgerðin ekki sjálfstæð helgiathöfn eins og hjá gyðingum. Bhabha sjálfur er múslimi og segir að verði umskurður drengja gerður refsiverður samkvæmt lögum sé íslenska ríkið í raun að segja þessum hópum að hér séu þeir ekki velkomnir.

„Ef ég væri að íhuga að flytja til Íslands myndi ég hætta við það ef þetta frumvarp yrði að lögum þar sem það myndi segja mér að hér væri ég ekki velkominn.“

Ekki má koma fram við innflytjendur eins og gesti

Talað hefur verið um að umskurður brjóti ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, meðal annars þar sem barnið hafi ekkert um aðgerðina að segja og geti ekki tekið upplýsta ákvörðun um hana. Það er meðal annars afstaða Umboðsmanns barna hérlendis að bíða skuli með að gera slíka aðgerð þar til barn hefur þroska til að móta sína eigin afstöðu.

„Það er falleg hugmynd, en málið er að það eru svo margir hlutir um líf okkar og sjálfsmynd sem eru forskrifuð fyrir okkur. Foreldrar okkar það að miklu leyti hver við sjálf erum og mennigin raunar í heild sinni. Hvaða upplýstu ákvarðanir erum við í raun að taka þegar það kemur að persónulegri sannfæringu okkar og trú?

Þú getur haft þessar hugmyndir um að sjálfráða einstaklingar eigi að taka þessar ákvarðanir en raunveruleikinn er sá að þessar aðgerðir munu halda áfram þar til þau samfélögin ákveða sjálf að hætta þeim. Lögin eru ekki leiðin til að breyta þeim. Það fylgir því áhætta að nota lög ríkisins til þess að segja minnihlutahópum hvernig þeir eigi að iðka sín trúarbrögð og þróa menningu sína. Ég tel það siðferðilega rangt og áhættusamt fyrir ríkið, af því að hættan er sú að þessir minnihlutahópar muni halda enn fastar í táknmyndir menningar sinnar – og þetta höfum við séð gerast á Vesturlöndum,“ segir Bhabha.

Hann bætir því við að ef að markmiðið sé að innflytjendur aðlagist samfélaginu ætti samfélagið að mæta þörfum þeirra á móti og taka tillit til ólíkra trúarhefða og menningarsiða. Ekki megi koma fram við innflytjendur eins og gesti.

„Þeir eru komnir til að vera, þeir eru hér til að blandast, eignast börn og skjóta rótum. Ef þú vilt að þeir ílengist, þá þarftu að mæta þörfum þeirra. Þetta snýst í raun og veru bara um að láta fólki líða eins og það sé velkomið og hluti af samfélaginu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert