Þörf á nokkurra ára aðlögunartíma

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram í Laugardalshöll um helgina.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram í Laugardalshöll um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Töluverð vinna er í gangi í atvinnuvegaráðuneytinu til þess að bregðast við dómi EFTA-dómstólsins í nóvember á síðasta ári þar sem innflutningstakmarkanir Íslands á fersku kjöti frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) voru dæmdar ólögmætar. Þetta kom fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn sem hann fékk á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem stendur yfir í Laugardalshöll í Reykjavík.

Kristján Þór sagði áherslu stjórnvalda fram að því að dómurinn féll hafa snúist um að verja þá stefnu að takmarka innflutning á fersku kjöti og síðan eftir að málareksturinn hófst að beita sér fyrir því að dómur félli stjórnvöldum í vil. Eftir að dómurinn hefði fallið hefði vinnan beinst að því með hvaða hætti væri hægt með skipulögðum hætti að bregðast við honum. Ef breyta ætti löggjöf Íslands væri ljóst að einhver ár þyrfti til undirbúnings fyrir þennan nýja veruleika.

Stjórnvöld hafi unnið að því að fá samþykktan lengri aðlögunartíma. Ennfremur þyrfti að undirbúa löggjöf og fá viðbótartryggingar einkum varðandi salmonellu sem og kampýlóbakter. Samstarf væri komið á við þýsku áhættumatsstofnunina sem myndi leiða íslensk stjórnvöld í gegnum regluverk Evrópusambandsins og verið væri að leggja drög að því hvernig yrði staðið að opinberri sýnatöku á markaði sem og varðandi ábyrgð matvælafyrirtækja.

Kristján sagðist hafa óskað eftir því við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að haldið yrði áfram vinnu sem hann hefði hafið sem forveri hennar varðandi sýklalyfjaónæmi. Vinnuhópur hefði skilað tillögum í þeim efnum sem fylgja yrði eftir. Ennfremur stæði til að setja upp viðbragðsteymi sérfræðinga sem gæti varað stjórnvöld á hverjum tíma við mat á áhættu vegna matvæla, fóðurs og annars slíks. Þá væri unnið að því að setja heildarmatvælastefnu fyrir Ísland.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðar- og …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í pallborðsumræðum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert