Deyja á biðlistum eftir meðferð

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir fólk deyja á biðlistum …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir fólk deyja á biðlistum eftir áfengis- og vímuefnameðferð. mbl.is/​Hari

Inga Sæland formaður Flokks fólksins, gerði skort á aðstoð við áfengis- og vímuefnasjúklinga að umtalsefni í fyrirspurn sinni til heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. „Frá því 1985 hefur heilbrigðisráðuneytið fækkað sjúkrarúmum sem ætluð eru til meðferðar vímuefna- og áfengissjúklinga úr  265 niður í 62,“ sagði Inga Sæland kvað fækkunina nema á milli 400-500% á þessu tímabili.

„Á sama tíma og þörfin hefur aldrei verið meiri,“ sagði hún. Á meðan á milli 500-600 vímu- og áfengissjúklingar bíði eftir hjálp að þá deyi þeir. „Þeir deyja á þessum biðlistanum. Það er hægt að líkja þessu við að fólki væri meinað að fara inn á bráðamóttökuna og að það þurfi að bíða fyrir utan  eftir að komast þar inn.“

Spurði Inga Sæland ráðherra hvort það sé viðundandi að samtal sé enn í gangi, þegar að full þörf sé á aðgerðum. „Hvað er ráðherra að gera fyrir þetta fólk?“ spurði hún.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra svaraði því til að mikilvægasta mál sem nú sé á borðinu sé að koma geðheilbrigðistefnu til fullra framkvæmda. „Áfengis- og vímuefnavandi er geðheilbrigðisvandi og við þurfum að beina sjónum okkar meira að forvörnum,“ sagði Svandís. „Við þurfum að geta boðið upp á úrræði sem virka í nærumhverfi, því að fólk sem að glímir við slíkan vanda það lifir ekki í tómarúmi.“

Málið verði ekki leyst með framlagi til eins aðila. „Þá væri þetta einfalt mál. Það er flókið viðfangsefni að takast á við þetta, en við eigum að hafa kjarkinn til að skoða þetta í öllum sínum myndum,“ sagði ráðherra.

Inga svaraði því til að það væri alrangt að málið snérist aðallega um geðheilbrigðisvanda og benti á það þrekvirki sem sjúkrahúsið Vogur hafi unnið.

„Ég bið því ráðherra að svara mér með öðru en útúrsnúningum,“ sagði Inga Sæland og ráðherra svaraði því til að sífellt sé verið að leggja meiri áherslu á göngudeildarþjónustu en innlögn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert