„Hættulegur fyrir sjálfstæðið okkar“

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Miklar áhyggjur eru af regluverki Evrópusambandsins um orkumál á Íslandi. Ekki aðeins í okkar flokki heldur í næstum öllum stjórnmálaflokkunum fyrir utan þá tvo flokka sem styðja inngöngu í Evrópusambandið, sósíaldemókratana og Viðreisn.“

Þetta hefur norski fréttavefurinn Abcnyheter.no eftir Óla Birni Kárasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, en landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins um atvinnumál hefur verið vakið talsverða athygli í Noregi frá því að hún var samþykkt á sunnudaginn en ástæða þess er sá hluti ályktunarinnar sem fjallar um orkumál þar sem skírskotað er til aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

„Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins,“ segir meðal annars í ályktuninni sem breið samstaða var um á landsfundi flokksins samkvæmt heimildum mbl.is. 

Mun ekki styðja orkumálapakka ESB

Mikil umræða hefur átt sér stað í Noregi um svonefndan þriðja orkumálapakka Evrópusambandsins sem til stendur að taka upp í EES-samninginn að því gefnu að þjóðþing þeirra aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) sem aðild eiga að EES-samningnum, Íslands, Noregs og Liechtenstein, samþykki viðkomandi löggjöf.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Óli Björn Kárason

„Ég á von á því að við munum sjá miklar umræður þetta á komandi vikum,“ segir Óli Björn ennfremur í viðtalinu og bætir við: „Miðað við þá vitneskju sem ég hef um málið mun ég aldrei greiða atkvæði með þessum orkumálapakka frá Evrópusambandinu. Hann er hættulegur fyrir sjálfstæðið okkar.“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi Evrópusambandið í umræðum á Alþingi í síðasta mánuði fyrir að reyna ítrekað að fá EFTA/EES-ríkin til þess að gangast með beinum hætti undir vald stofnana sambandsins þvert á tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Við það bættist að önnur EFTA/EES-ríki ættu það til að fallast á kröfur Evrópusambandsins áður en ríkin þrjú hefðu komist að niðurstöðu sín á milli.

Lítill stuðningur á meðal Norðmanna

Fjölmenn mótmæli hafa átt sér stað vegna málsins í Noregi og fóru ein slík fram í gær fyrir utan norska Stórþingið í Ósló. Bent hefur verið á að orkumálapakkinn færi völd yfir norskum orkumálum til fyrirhugaðrar orkumálastofnunar Evrópusambandsins.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi flokksins um helgina.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi flokksins um helgina. mbl.is/Eggert

Skoðanakönnun sem birt var á dögunum sýndi að innan við 10% Norðmanna styddu samþykkt orkumálapakkans en rúmur helmingur þeirra væri því andvígur. Til stendur að málið verði tekið fyrir á Stórþinginu á fimmtudag.

Kröfur hafa hins vegar komið fram um að frestað verði að taka málið fyrir í norska þinginu vegna afstöðu landsfundar Sjálfstæðisflokksins og sömuleiðis flokksþings Framsóknarflokksins sem fram fór fyrir rúmri viku en þar var samþykkt hliðstæð andstaða við að framselja vald yfir íslenskum orkumálum til Evrópusambandsins.

Frá mótmælunum fyrir utan norska þingið í gær.
Frá mótmælunum fyrir utan norska þingið í gær. Ljósmynd/Nei til EU
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert