Skýrt að málið njóti yfirburðarstuðnings

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, er einn flutningsmanna frumvarpsins.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, er einn flutningsmanna frumvarpsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir það vonbrigði að hópur þingmanna taki sig saman um málþóf til þess að koma í veg fyrir að vilji þingsins fái að koma fram. Umræðu um lækkun kosn­inga­ald­urs til sveit­ar­stjórn­ar­kosn­inga niður í 16 ár var í kvöld frestað til 9. apríl.

Hann segir það hafa komið skýrt fram í atkvæðagreiðslu eftir aðra umræðu að málið njóti yfirburðarstuðnings. Þorsteinn er einn flutningsmanna frumvarpsins.

Óvenjulegt málþóf

„Þetta er auðvitað óvenjulegt málþóf að því leytinu til að hefðbundið er að það er kannski stjórnarandstaða sem grípur til þess en þarna var það bæði hluti stjórnarandstöðunnar og hluti stjórnarflokkanna,“ segir Þorsteinn.

Að sögn fannst honum það furðulegasta við umræðuna að, þótt yfirgnæfandi stuðningur virtist meðal þingmanna að 16 ára unglingar mættu kjósa til sveitastjórnarkosninga, hafi „íhaldssamari hlutinn fundið því allt til foráttu“ að lækkun kosningaaldurs tæki gildi fyrir komandi kosningar.

Stærri kjörskrá eina breytingin 

„Einu áhrifin sem þessi breyting hefur er að kjörskráin stækkar. Það hefur engin önnur áhrif á framkvæmd kosninganna, setur framkvæmd kosninganna ekki á nokkurn  hátt í einhverskonar uppnám eins og verið var að ýja að í málflutningi.“

Þorsteinn nefnir í því samhengi að hægt sé að boða til þingkosninga með 6 vikna fyrirvara og vinna á þeim stutta tíma allan þann undirbúning sem þarf. „Þar með talið auðvitað að leggja fram kjörskrá, en eins að ljúka öllum öðrum undirbúningi sem er allverulegur. Þessi breyting hefur engin áhrif á undirbúninginn að öðru leyti, eingöngu að uppfæra kjörskránna sem er rafræn og tekur ekki langan tíma.“

Rökin á móti ekki skýr

„Maður sér ekki með neinum skýrum hætti hvaða rök eru á bak við það ef að stuðningur er við það á annað borð að 16 og 17 ára unglingar megi kjósa í sveitastjórnarkosningum, af hverju það megi það þá ekki taka gildi í þeim sveitastjórnarkosningum sem eru framundan.“

Hann segir það eiga eftir að koma ljós hvað verði um framhald umræðunnar. Nú er þingið komið í 2 vikna hlé og það vinni ekki með málinu. Hann telur þó ekki útilokað að þingið taki málið upp aftur eftir páska og loki því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert