Þingmenn ræða lækkun kosningaaldurs

Brynjar sagði þá helst styðja frumvarpið sem teldu sig geta …
Brynjar sagði þá helst styðja frumvarpið sem teldu sig geta grætt á því er talið verður upp úr kjörkössunum í lok maí. mbl.is/Árni Sæberg

Tekist er á um hvort lækka eigi kosningaaldurs til sveitarstjórnarkosninga niður í 16 ár á Alþingi í dag, en frumvarp þess efnis fór í gegnum aðra umræðu í gær óbreytt. Verði það óbreytt að lögum við atkvæðagreiðslu eftir þriðju umræðu munu allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 16 ára aldri geta kosið til sveitarstjórna í því sveitarfélagi þar sem þeir hafa lögheimili 26. maí næstkomandi.

Þó nokkur sjónarmið hafa komið upp í umræðunni um þetta mál, meðal annars það að óráðlegt sé að breyta kosningalöggjöf svo skömmu fyrir kosningar, eins og Samband íslenskra sveitarfélaga hefur bent á.

Einnig hafa þingmenn, sem mótfallnir eru frumvarpinu, sagt að hætta sé á mistökum þegar svo margir nýir kjósendur séu færðir inn á kjörskrá svo skömmu fyrir kosningar og hafa þeir vísað til umsagnar dómsmálaráðuneytisins um frumvarpið, en þar segir:

„Framkvæmd sveitarstjórnarkosninga er fyrst og fremst á sveitarstjórnarstiginu þannig að hitinn og þunginn af framkvæmd kosninganna lendir þar. Grundvallarbreytingar á lögum svo skömmu fyrir kosningar skapa hættu á að mistök verði í framkvæmd og mistök geta haft afdrifaríkar afleiðingar á gildi kosninga.“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, lét að því liggja í ræðu sinni áðan að þeir sem berðust fyrir því að þetta frumvarp færi í gegn væru helst þeir sem teldu sig geta grætt pólitískt á því – þeir sem teldu sig hafa mikinn stuðning á meðal þess aldurhóps sem öðlast myndi kosningarétt við breytingarnar.

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, mótmælti því að „annarlegar hvatir“ lægju að baki stuðningi þingmanna við frumvarpið og Brynjar svaraði því til að hann hefði ekki sakað kollega sína á þingi sem fylgjandi væru frumvarpinu um neinar annarlegar hvatir, heldur einungis um lýðskrum.

Búast má við að umræður um þetta mál muni taka nokkurn tíma, fjöldi þingmanna er á mælendaskrá og flestir taka sér góðan tíma í að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert