Frumvarpið í raun dautt

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður frumvarps …
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður frumvarps um lækkun kosningaaldurs í sveitarstjórnarkosningum. mbl.is/Eggert

Útlit er fyrir að kosningaaldur í komandi sveitarstjórnarkosningum verði óbreyttur, 18 ár. Frumvarp um lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár var tekið til þriðju umræðu á Alþingi í gær.

Meirihluti virðist fyrir málinu meðal þingmanna en ekki tókst að greiða atkvæði um málið í gær en mikil umræða var um frumvarpið, þá sérstaklega meðal þingmanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Miðflokksins og Flokks fólksins. Í gærkvöldi voru nokkrir þingmenn sem hafa lýst sig andvíga frumvarpinu gagnrýndir fyrir málþóf og sakaðir um að hindra að vilji þingsins næði fram að ganga.

Alþingi er nú komið í páskafrí til 9. apríl. 

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri þingsins, segir nær útilokað að breytingar verði gerðar á kosningaréttinum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar, sem fram fara 26. maí. „Almennt var litið á það í gær sem lokatilraun til að lækka kosningaaldur fyrir þessar kosningar, en svo varð ekki. Næsti þingfundur er 9. apríl og þá er, held ég, utankjörfundaratkvæðagreiðsla hafin og kjörskrá tilbúin,“ segir Helgi.

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis mbl.is/Golli

Í bréfi Bryndísar Helgadóttur, skrifstofustjóra lagaskrifstofu dómsmálaráðuneytisins, til Alþingis kemur fram að undirbúningur að kosningunum sé hafinn og utankjörfundaratkvæðagreiðsla megi hefjast 31. mars, átta vikum fyrir kosningar.

„Ég heyrði að einn flutningsmanna talaði um að flytja málið aftur í haust, og ég tel líklegast að málið sé nú í raun dautt, án þess að ég þori alveg að fullyrða það,“ segir Helgi. Hann segir þó mögulegt að breytingartillaga verði lögð fram á núverandi frumvarpi þannig að lögin öðlist gildi eftir einhver ár, og hafi þá fyrst áhrif á sveitarstjórnarkosningar 2022.

Í greinargerð með frumvarpinu er markmið þess sagt að styðja við lýðræðisþátttöku ungs fólks og auka tækifæri þess til að hafa áhrif á samfélagið. Yrði það að lögum fengju um 9.000. Bent er á að sama skref hafi verið stigið í ýmsum Evrópuríkjum, til að mynda Austurríki, Skotlandi, Eistlandi og Möltu auk nokkurra sambandslanda Þýskalands. Þá miðist kosningaréttur til þingkosninga við 18 ár í mörgum ríkjum Suður-Ameríku.

Þegar fyrst var kosið til Alþingis árið 1843 miðaðist var kosningaaldur 25 ár, og aðeins fyrir karlmenn. Síðan þá hefur kosningaaldur farið lækkandi í skrefum. Hann síðan lækkaður í 21 ár 1934, 20 ár 1968 og loks í 18 ár árið 1984.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert