Námsmanni gert að yfirgefa landið

Rajeev kom hingað til lands sem sjálfboðaliði árið 2016 og …
Rajeev kom hingað til lands sem sjálfboðaliði árið 2016 og hóf síðar nám í leiðsögumennsku við Keili. Ljósmynd/Aðsend

Kanadamanninum Rajeev Ayer, nema í leiðsögunámi við Keili, hefur af hálfu Útlendingastofnunar verið gert að yfirgefa landið, en hann segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við stofnunina.

Rajeev, sem hefur frá árinu 2016 dvalist á Íslandi, segir óljósa upplýsingagjöf stofnunarinnar hafa valdið því m.a. að umsókn hans um dvalarleyfi hafi velkst um í stjórnsýslunni í nokkra mánuði og að lokum leitt til þess að hann muni ekki geta lokið námi sínu á tilskildum tíma, í maí nk.

Staða Rajeev í dag er sú að hann þarf að yfirgefa Ísland svo Útlendingastofnun leysi úr umsókn hans um dvalarleyfi.

Til umfjöllunar frá því á síðasta ári

Rajeev kom hingað til lands í desember árið 2016 og sótti um dvalarleyfi vegna sjálfboðastarfa, en hann dvaldi þá hjá Útilífsmiðstöðinni við Úlfljótsvatn.

„Síðar sótti ég um námsvist hjá Keili og þurfti í kjölfarið ljúka nokkrum málum. Ég vildi framlengja dvalarleyfið, sækja um námsleyfi og sækja um atvinnuleyfi einnig. Af því staða mín var að þessu leyti flókin, þá hringdi ég í Útlendingastofnun í maí á síðasta ári og óskaði upplýsinga um hvernig ég ætti að snúa mér í þessu. Ég fékk þau svör að þar sem ég væri á Íslandi þyrfti ég að fylla út umsókn um dvalarleyfi og einnig vinnuleyfi. Á þessum tímapunkti hafði ég fengið atvinnutilboð frá Útilífsmiðstöðinni við Úlfljótsvatn,“ segir Rajeev.

„Á eyðublaðinu voru nokkrir valkostir gefnir og ég hakaði við „endurnýjun dvalarleyfis“. Einnig voru reitir á blaðinu til að sækja um atvinnuleyfi og námsleyfi. Aðeins var hægt að velja um einn þessara reita svo ég hakaði við reitinn um atvinnuleyfi en fyllti þó út allar þær upplýsingar sem beðið var um ef sótt væri um námsleyfi. Síðar fékk ég ábendingu um að ég hefði ekki skilað inn einu eyðublaði í viðbót og skilaði því innan tímamarka,” bætir hann við.

Rajeev segir að Útlendingastofnun hafi leiðbeint honum um að fylla eyðublaðið út með þessum hætti, þ.e. að merkja við reitinn um atvinnuleyfi og fylla einnig út upplýsingar sem vörðuðu námsleyfi.

Umsókninni hafnað

Í október sl. fékk Rajeev tilkynningu frá Vinnumálastofnun um að umsókn hans hefði verið hafnað á grundvelli þess að Útilífsmiðstöðin við Úlfljótsvatn hefði ekki tilkynnt um starfið til stofnunarinnar

„Ástæðan sem gefin var upp var að Úlfljótsvatn hefði boðið mér starfið strax án þess að tilkynna Vinnumálastofnun um það og án þess að bjóða öðrum starfið, sem ég skil fullkomlega, en þetta var mér ekki ljóst fyrr en þarna í október,“ segir Rajeev.

Skömmu síðar bauðst Rajeev annað starf hjá leiðsögumanni við Laugarvatn og hafði samband við Útlendingastofnun.

„Hann hafði farið að fyrirmælum Vinnumálastofnunar og ekki fundið neinn sem stóðst hæfniskröfur fyrir starfið. Vinnumálastofnun samþykkti þetta og hjá Útlendingastofnun fékk ég þær upplýsingar að ég þyrfti að senda inn nýja umsókn af því það væri ekki hægt að veita atvinnuleyfi á grundvelli gamallar umsóknar sem hefði verið hafnað. Á þessum tímapunkti hafði tímabundið dvalarleyfi mitt runnið út en mér var sagt að ef ég sendi inn nýja umsókn innan níutíu daga, þá þyrfti ég ekkert að óttast og þyrfti ekki að yfirgefa landið. Ég gerði það og sendi inn viðeigandi gögn, þ.á.m. samþykki Leiðsögumannafélagsins,“ segir Rajeev.

Fyrri umsókninni ólokið

Í upphafi þessa árs fylgdi Rajeev málinu eftir og fékk nú í byrjun marsmánaðar þær upplýsingar að Vinnumálastofnun hefði aftur hafnað umsókn hans. Upp úr krafsinu kom að Vinnumálastofnun hafði unnið eftir upphaflegri umsókn Rajeev hjá Útlendingastofnun, frá því í maí á síðasta ári. Hafði hann staðið í þeirri trú að unnið væri úr nýrri umsókn hans.

„Starfsmaðurinn útskýrði fyrir mér að ekki væri búið að vinna í nýju umsókninni minni vegna þess að hinni fyrri hefði ekki verið lokið. Vinnumálastofnun hefði lokið við afgreiðslu hennar, en ekki Útlendingastofnun. Ég veit ekki hvers vegna það tók svona marga mánuði, en starfsmaðurinn sagði að fyrri umsóknin yrði kláruð fyrst og síðan yrði hafist handa við þá síðari,“ segir hann og tekur sérstaklega fram að starfsfólk stjórnsýslunnar hafi á öllum stigum verið hjálplegt, vingjarnlegt og kurteist.

„Þess vegna var mjög skrýtið að heyra að fyrri umsókn minni hefði ekki verið sinnt. Síðan var umsóknin unnin og tveimur vikum síðar fékk ég bréf frá Útlendingastofnun um að vinnu við umsóknina hefði verið lokið og vegna þess að Vinnumálastofnun hefði hafnað um atvinnuleyfi myndu þeir hafna umsókn minni um dvalarleyfi líka. Í raun litu þeir fram hjá námsleyfishlutanum og einblíndu á atvinnuleyfið. Í bréfinu stóð að ég þyrfti að yfirgefa landið innan fimmtán daga,“ segir Rajeev sem hefur nú áfrýjað málinu og reynt að útskýra stöðu sína nánar fyrir Útlendingastofnun. Hann kveður forsvarsmenn Keilis einnig hafa hjálpað sér í málinu.

Upplýsingar á skjön hjá Útlendingastofnun

„Þær skýringar sem hafa fengist eru að vegna þess að ég hafði ekki hakað við reitinn um námsleyfi á umsókn minni í maí, sem ég hafði gert samkvæmt fyrirmælum Útlendingastofnunar, þá hefði ég í raun aldrei sótt um leyfi til náms hér á landi. Ég gæti aðeins sótt um vinnuleyfi eða námsleyfi, en þessar upplýsingar voru á skjön við þær leiðbeiningar sem ég hafði fengið í upphafi,“ segir Rajeev.

Samkvæmt upplýsingum Rajeev frá stofnuninni þarf hann nú að yfirgefa landið á grundvelli þess að umsókn hans var hafnað og þá verði umsókn hans tekin til afgreiðslu. Þar sem upphaflegt dvalarleyfi hans hefði verið á grundvelli þess að hann sinnti sjálfboðastörfum og umsókn um endurnýjun byggði á atvinnuleyfi, gæti hann ekki verið hér á landi á meðan umsóknin yrði afgreidd.

„Þessar upplýsingar hafði ég aldrei fengið frá Útlendingastofnun. Hefði ég vitað þetta í maí á síðasta ári, þá hefði ég að sjálfsögðu gert þetta til að vera ekki í þessari stöðu nú, þegar stutt er þar til ég klára námið,“ segir Rajeev sem hefur sett sig í samband við háskóla í Kanada og athugar nú hvort mögulegt sé fyrir hann að ljúka náminu með hjálp skólayfirvalda þar í landi. Að öðrum kosti getur hann lokið náminu hér á landi á næsta ári, fái hann leyfi til þess.

Rajeev kveðst óánægður með meðferð málsins.

„Ég skil ferlið og stefnu stjórnvalda jafnvel þótt ég kunni ekki að vera sammála stjórnvöldum í öllu, sér í lagi því að þurfa að yfirgefa landið til að umsóknin verði tekin fyrir. Ég vildi bara óska þess að ég hefði fengið allar upplýsingarnar til að byrja með. Ástæða þess að ég hafði sérstaklega samband við Útlendingastofnun í upphafi var sú að staða mín var ögn flókin. Ég er óánægður með skortinn á upplýsingum og samskiptaleysið, annað ekki,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert