„Opni alls ekki póstana“

Valitor biður korthafa að smella alls ekki á hlekkinn, enda …
Valitor biður korthafa að smella alls ekki á hlekkinn, enda sé pósturinn ekki frá þeim kominn. Ljósmynd/Skjáskot

Tölvupóstar hafa nú síðdegis borist fólki í nafni Valitors þar sem greint er frá því að kreditkorti viðkomandi hafi verið lokað vegna „tæknilegra atvika“ í gagnagrunni. Vilji viðkomandi hins vegar halda áfram að nota kort sitt líkt og áður er honum bent á að smella á tengilinn sem er neðar í póstinum.

„Þetta er ekki frá okkur og við biðjum fólk að opna alls ekki póstana eða smella á hlekkinn,“ segir Jónína Ingvadóttir, deildarstjóri í markaðsdeild Valitors, í samtali við mbl.is.

„Við vorum bara að heyra af þessu núna áðan og erum rétt byrjuð að skoða þetta. Við erum því ekki enn búin að komast að því hvort tölvupóstarnir berast bara til okkar korthafa og séu þannig árás á fyrirtækið, eða hvort þeir fari á fleiri.“

Hún segir starfsfólk þjónustumiðstöðvar Valitors hins vegar hafa nú síðdegis farið að fá símtöl frá áhyggjufullum viðskiptavinum sem láti vita af póstunum.

Jónína segir póstana væntanlega svipaða og þá sem áður hafa verið sendir í nöfnum annarra íslenskra fyrirtækja. „Þannig að undir engum kringumstæðum á fólk að opna hlekkina eða gefa upp nokkrar upplýsingar,“ segir hún.

Ekki liggur enn fyrir hvort málið verði tilkynnt til lögreglu en Jónína kveðst þó reikna með að Valitor láti rannsaka málið eins og hægt er.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert