„Ekki frumvarp um það að banna umskurð“

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við vildum benda á að svona atriði þarf mikla umræðu og það verða öll sjónarmið að koma fram áður en ákvörðunin verður tekin,“ segir séra Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, um frumvarp um bann við umskurði drengja sem liggur nú fyrir Alþingi.

Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali Bjartar Ólafsdóttur við Agnesi í þjóðmálaþættinum Þingvellir sem hóf göngu sína á K100 í morgun. Þátturinn verður á dagskrá alla sunnudag og mun Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, stýra þættinum á móti Björt, þó þau hafi ekki útilokað að stýra þættinum saman.

Frétt mbl.is: Þjóðmálaþátturinn Þingvellir í loftið

Biskupsstofa leggst gegn frumvarpi um bann við umskurði drengja en Agnes segir Biskupsstofu ekki leggjast gegn umskurði sem slíkum.  

„Þetta er ekki frumvarp um það að banna umskurð, þetta er frumvarp til breytinga á hegningarlögum sem kveður á um það að ef að foreldrar láta umskera barn sitt geti það varðað allt að sex ára fangelsi,“ sagði Agnes í þættinum í morgun.

Hún benti á að fyrir ýmsu fólki, líkt og Gyðingum, er umskurður nánast trúartákn. „Umskorið sveinbarn er hluti af samfélagi gyðinga. Þá spyrjum við á móti: Viljum við ekki að gyðingar búi hér á landi? Við lítum á alla menn jafnt.“

Agnes segir að þó það sé ekki hluti af trúarbrögðum kristinna manna að umskera sveinbörn verði að taka tillit til þeirra trúarbragða. „Við verðum samt að taka tillit til annars fólks sem hefur önnur viðmið og sjónarmið og það er það sem við erum að benda á.“

Þarf að koma í veg fyrir umskurð bak við luktar dyr

Að mati Agnesar getur samþykkt frumvarpsins haft ýmsar hættur með í för. „Við bentum líka á að það er ekki hægt að koma því þannig fyrir að það sé öruggt að ef drengir eru umskornir hér á landi að það sé gert af heilbrigðisstarfsfólki sem kann til verka. Við viljum líka benda á það að við þurfum að koma í veg fyrir að menn séu að umskera sveinbörn einhvers staðar bak við luktar dyr, kannski með tækjum og tólum sem virka illa eða einhverju slíku.“

Þessi sjónarmið séu því frekar ástæðan fyrir því að Biskupsstofa leggst gegn frumvarpinu. „En hins vegar, ef við erum kristið fólk þá erum við ekki að spyrja um viðhorf þeirra sem standa á móti okkur, við reynum að hjálpa fólkinu og það gerum við gagnvart öllu fólki,“ segir Agnes.

Treystir Alþingi til að taka rétta ákvörðun

Agnes segir að þjóðkirkjan beri fullt traust til þingmanna til að taka rétta ákvörðun þegar kemur að frumvarpinu.

„Þetta er mál sem þarf að ræða vel og það er hluti af því að vera í lýðræðissamfélagi að við hjálpumst að að komast að niðurstöðu. Ef það verður niðurstaða þingsins að nákvæmlega samþykkja þennan texta sem fyrir liggur á þinginu þá er það þannig og þá förum við eftir því. Við treystum þingmönnum til að taka góðar og réttar ákvarðarnir og hafa skoðað þær út frá öllum sjónarmiðum, en við viljum líka koma öllum sjónarmiðum að.“  

Hér er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni en meðal þess sem Björt og Agnes ræddu einnig voru gildi trúar í nútímasamfélögum, #metoo-byltingin og hvernig hún hefur birst innan kirkjunnar og hvort, og þá hvernig hlutirnir eru að færast í átt að nútímanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert