Svona voru aprílgöbbin 2018

Burger King taldi fólki í trú um að nýr súkkulaðiborgari …
Burger King taldi fólki í trú um að nýr súkkulaðiborgari væri að koma á matseðilinn. Skjáskot/Youtube

Fyrsta apríl á hverju ári birta fjölmiðlar, fólk og fyrirtæki fréttir sem miða að því að gabba fólk með meinlausum hætti. Hér eru helstu íslensku aprílgöbbin og nokkur utan úr heimi. 

Aprílgabb mbl.is var frétt um að ungt fólk 16-18 ára myndi geta tekið þátt í sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um í Reykja­vík þann 26. maí næst­kom­andi. Í fréttinni kom fram að samþykkt hefði verið í borg­ar­ráði að veita hópn­um rétt til að kjósa í ráðgef­andi kosn­ingu og að fólk gæti skráð sig til þátt­töku á net­inu. 710 fóru inn á síðuna sem leit út eins og síða á vef Reykjavíkurborgar og 259 hlupu apríl með því að slá inn kennitölu og netfang.

Á íþróttavef mbl.is birtist frétt um að arg­entínska knatt­spyrnugoðsögn­in Diego Mara­dona og Guðni Bergs­son, formaður KSÍ, myndu sitja fyr­ir svör­um á Laug­ar­dals­velli í dag og ræða um eft­ir­tekt­ar­verðan ár­ang­ur Íslend­inga í knatt­spyrnu á alþjóðavett­vangi. Maradona gæfi síðan fólki sem mætti áritaðar landsliðstreyjur.

Í svipuðum dúr var greint frá því á Vísi að utanríkisráðuneytið hefði gefið Tólfunni, stuðningsmannahópi íslenska landsliðsins, miðana sem sem ráðamenn Íslands og aðilar innan stjórnsýslunnar myndu ekki nýta á leiki Íslands á HM í knattspyrnu í Rússlandi. Tólfan hefði síðan ákveðið að láta þá ganga til almennings. 

Vefur Fréttablaðsins greindi frá því að hátíðarmessugestir Hallgrímskirkju og Dómkirkjunnar ættu von á glaðningi í dag. Í tilefni páskadags hefðu kirkjurnar tvær, ásamt Nóa Síríus, tekið höndum saman og myndu gestir verða útleystir með páskaeggjum við messulok.

Skyrframleiðandinn Sigg­i's sagði í færslu á Facebook að nýjasta vara fyrirtækisins væri skyr með kæstum hákarli. Kom fram að í skyr­inu væru stór­ir bit­ar af há­karli svo að neyt­and­inn gæti notið bragðsins og lykt­ar­inn­ar til fulln­ustu.

Ferðaþjónustufyrirtækið Guide to Iceland birti myndskeið á Facebook-síðu sinni þar sem sagt var að mörgæsir væru í fyrsta sinn byrjaðar að hreiðra um sig á Íslandi vegna fæðuskorts á Suðurskautslandinu. 

 

 Þá var bílstjóri Strætó nokkuð sniðugur í dag að því er fram kemur í færslu Kristínar Ólafsdóttur á Twitter. Stoppaði hann vagninn og sagði öllum að fara út en að því loknu benti hann farþegum á að það væri fyrsti apríl. Kristín segir að allir hafi tekið þessu gríni vel. 


Advania útbjó kynningarmyndband fyrir, Digi-Preg, nýja stafræna þungunarprófið. Þungunarprófið var sagt virka þannig að hægt væri að tengja það með USB-tengi við tölvuna til að fá niðurstöðurnar og að hægt væri að deila niðurstöðunum á Facebook.

Google í Ísrael sagðist hafa notað gervigreind til þess að búa til byltingarkennt forrit sem hjálpar þér að finna þitt uppáhalds hummusbragð. 

Burger King kynnti nýjan súkkulaðiborgara með hindberjasíróp í stað tómatsósu, vanilluglassúr í stað majóness og hvíta súkkulaðihringi í stað laukhringja ásamt öðru gúmmelaði. 

Aprílgabb Burger King var ekki það eina sem snerist um súkkulaði. The Independent greindi frá því að matvælaframleiðandinn Heinz ætlaði að setja súkkulaðimajónes á markað. Þá var fullyrt í Sunday Mirror að Coca-Cola hefði þróað þrjár nýjar bragðtegundir; avókadóbragð, súrdeigsbragð og kolabragð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert