Það eina ábyrga að lóga hundinum

Eigandinn segir það eina ábyrga í stöðunni að lóga hundinum.
Eigandinn segir það eina ábyrga í stöðunni að lóga hundinum. mbl.is/Hjörtur

Eigandi hunds af tegundinni Alaska malamute, sem beit fimm ára barn í andlitið á föstudaginn langa, staðfestir það í samtali við mbl.is að hundinum verði lógað síðar í dag. Hann segir það það eina ábyrga í stöðunni. Fjölskyldan vilji ekki hafa hundinn eftir þetta atvik eða gera nágrönnunum sínum það að vera með hann áfram.

Barnið sem hundurinn beit var flutt á sjúkra­hús eft­ir að hafa kom­ist sjálft í burtu frá hund­in­um og gert viðvart um árás­ina, sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is, en 80 spor þurfti að sauma í andlit þess. Reiðhjóla­hjálm­ur er tal­inn hafa bjargað lífi barnsins.

Hundurinn var bundinn í langa keðju fyrir utan heimili nágranna barnsins, en fjölskyldumeðlimur var heima. Áður hafði komið fram að eigendur hundsins hefðu ekki verið heima, en hann hafði hins vegar ekki verið skilinn einn eftir.

Þá hafði komið fram að hundurinn hefði áður ráðist á póstburðarmann, en eigandinn áréttar að hundurinn hafi þá aðeins glefsað í fatnað. Þetta hafi því verið í eina skipti sem hundurinn hafi bitið.

Barnið, sem ligg­ur á Barna­spítala Hrings­ins, gekkst und­ir tveggja klukku­stunda aðgerð á föstu­dag­inn hjá lýta­lækn­um. Það mun gang­ast und­ir aðra aðgerð á morg­un, sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is. Það er með nokk­ur bits­ár á hönd­um, auk þess sem það var bitið á milli augn­anna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert