Bannið virkar ekki

Í menntamálaráðuneytinu er til skoðunar að leyfa áfengisauglýsingar, að sögn Lilju Alfreðsdóttur ráðherra. Deilt hefur verið um þetta mál árum saman og nefnd um bætt rekstrarskilyrði fjölmiðla hefur til dæmis mælt með því að áfengisauglýsingar verði heimilaðar, eftir ákveðnum reglum.

Bann við áfengisauglýsingum gerir það að verkum að íslenskir framleiðendur standa höllum fæti í baráttu við erlenda. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir augljóst að breyta þurfi reglum og leyfa áfengisauglýsingar.

Íslendingar hafi haft aðgang að áfengisauglýsingum árum saman. Fyrst í erlendum blöðum og tímaritum og beinum útsendingum frá íþróttaviðburðum og síðar netinu og samfélagsmiðlum og þar sé mikið um áfengisauglýsingar.

Hann segir að bannið feli í sér mismunun. „Erlendum framleiðendum er gert auðvelt að koma vörumerkjum sínum á framfæri en Íslendingum er það bannað,“ segir Ólafur. Íslenskir framleiðendur eru sektaðir ef þeir auglýsa en þeir erlendu sleppa. 

Bannið virki í raun ekki og af því áfengisauglýsingar eru bannaðar eru ekki til reglur um áfengisauglýsingar. Félag atvinnurekenda hafi hins vegar samið ítarlegar siðareglur til að fylgja í þessum auglýsingum, sem þó eru bannaðar. Eins undarlega og það hljómar.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Ólaf hér og á K100.is er hægt að hlusta á allan þáttinn og sjá fleiri brot.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert