Bæjarfulltrúar segja sig úr Bjartri framtíð

Guðlaug hyggst starfa sem óháður bæjarfulltrúi út kjörtímabilið.
Guðlaug hyggst starfa sem óháður bæjarfulltrúi út kjörtímabilið.

Guðlaug Kristjánsdóttir og Einar Birkir Einarsson, bæjarfulltúrar Bjartar framtíðar í Hafnarfirði, sögðu sig úr flokknum í dag og munu starfa sem óháðir bæjarfulltrúar út kjörtímabilið. Guðlaug, sem er forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, segir samstarfsörðugleika og trúnaðarbrest hafa leitt til þessarar niðurstöðu. Hún greindi frá málinu á Facebook-síðu sinni fyrir skömmu.

„Það hafa verið langvarandi samstarfsörðugleikar og í raun trúnaðarbrestur innan flokksins. Ég er búin að vera að hugsa þetta síðan í haust en ætlaði að klára, halda út kjörtímabilið, en það var útséð um það,“ segir Guðlaug í samtali við mbl.is.

Hún segir í raun ekkert eitt hafa verið kornið sem fyllti mælinn, heldur hafi óbreytt ástand orðið til þess að þau tóku þessa ákvörðun.

Guðlaug segir samstarfsörðugleikana ekki hafa tengst ákveðnum málum heldur hafi verið um að ræða viðvarandi ástand innan flokksins. Hún segir þau Einar því hafa ákveðið að taka sameiginlega ákvörðun um að segja sig úr Bjartri framtíð.

„Við höfðum rætt þetta áður en höfðum einsett okkur að klára þetta, en við munum fylgja þessum verkefni eftir sem við tókum að okkur og við sem meirihluti höfum í raun lokið við þau markmið sem við settum okkur í upphafi. Við horfum til baka full stolts og klárum þetta.“

Aðspurð hvort þau hafi rætt við forystu flokksins áður en ákvörðunin var tekin, svarar hún neitandi, en þau gerðu öðrum fulltrúum Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði grein fyrir ákvörðuninni fyrr í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert