50 íbúðir á teikniborðinu

Byggðin í Árnesi.
Byggðin í Árnesi. Ljósmynd/Skeiða- og Gnúpverjahreppur

Tæplega 50 íbúðir eru nú á teikniborðinu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, en þær tengjast flestar þremur verkefnum í atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Þegar þetta er sett í samhengi við íbúafjölda sveitarfélagsins er ljóst að mikill hugur er í heimamönnum og atvinnuuppbygging þar fjölbreyttari en fjöldi frétta um virkjanamál sem tengjast sveitarfélaginu gefur til kynna.

Yrði tvöföldun á núverandi íbúðafjölda Brautarholts

Björgvin Skafti Bjarnason, oddviti í hreppnum, segir í samtali við mbl.is að í Brautarholti séu 19 íbúðir á teikniborðinu. Þær tengjast að miklu leyti uppbyggingu fyrirtækisins Landstólpa sem er með aðsetur í Gunnbjarnarholti, skammt frá Brautarholti. Samtals horfir fyrirtækið til þess að reisa þar 12 íbúðir.

Í dag eru 70 íbúar í Brautarholti í um 20 húsum þannig að um er að ræða tvöföldun á núverandi íbúðahúsnæði ef öll áform ganga eftir.

Brautarholt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Brautarholt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Ljósmynd/Skeiða- og Gnúpverjahreppur

Baðlón, kjötvinnsla og pizzur

Möguleg uppbygging í Árnesi er aðallega tilkomin vegna uppbyggingar tveggja atvinnuverkefna. Í fyrsta lagi áformar félagið Rauðikambur að byggja upp baðlón og ferðaþjónustu þar sem Þjórsárdalslaug var áður. Samhliða því er horft til þess að byggja upp 12 íbúðir í Árnesi fyrir starfsfólk.

Í Laxárdal, upp af Þjórsárdal, hefur svínabúið Korngrís svo verið að auka umsvif sín. Meirihluti af fóðri svínanna samanstendur af korni frá Gunnarsholti og samhliða svínarækt hefur verið rekinn pizzasöluvagn sem ferðast um Suðurlandið. Er kornið notað í pizzabotninn og svínaafurðir meðal annars í álegg á pizzurnar.

Björgvin Skafti segir að nú sé unnið að því að setja upp kjötvinnslu í Árnesi vegna þessarar framleiðslu og horft til íbúðabyggingar samhliða.

Skeiða- og Gnúpverjahreppur.
Skeiða- og Gnúpverjahreppur. Skjáskot/Samband íslenskra sveitarfélaga

Að lokum segir Björgvin Skafti að nokkur íbúðarhús séu á teikniborðinu við aðra bæi í sveitarfélaginu og samtals sé því verið að horfa á allt að 50 íbúðir.

Íbúar í dag 690

Samtals eru íbúar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi 690 talsins. Þar af eru um 100 sem starfa við uppbyggingu Búfellsvirkjunar 2 og ljóst að meirihluti þeirra mun flytja á brott þegar verkið klárast. Uppbygging 50 íbúða í sveitarfélagi af þessari stærð er því gríðarlega umfangsmikil og gangi allt eftir gæti hún fjölgað íbúum hlutfallslega mjög mikið á komandi árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert